Home Fréttir Í fréttum Aukin aðsókn og Jarðböðin stækkuð

Aukin aðsókn og Jarðböðin stækkuð

63
0
Núverandi baðlón verður stækkað og eldri byggingar lagðar af. RÚV – Sölvi Andrason

Umfangsmiklar framkvæmdir standa yfir við Jarðböðin í Mývatnssveit. Hellir sem opnaðist á framkvæmdasvæðinu tafði fyrir en hafði ekki áhrif á burðarþol bygginga. Nærri tvö hundruð þúsund gestir sækja böðin árlega.

<>

Framkvæmdir við Jarðböðin hófust sumarið 2022. Núverandi lón verður nýtt áfram nýtt en stækkað. Ný hús verða byggð og miklar breytingar gerðar á allri aðstöðu.

Öll starfsemin verður flutt í 2.700 fermetra nýbyggingu
Guðmundur Þór Birgisson, framkvæmdastjóri Jarðbaðanna, segir að eftir breytingar verði mun betra aðgengi fyrir gesti ofan í lónið, þá verði öll aðstaða auðvitað splunkuný og rýmra um baðgesti. „Helsta breytingin gagnvart gestum veður búningsaðstaðan og að vera á einni hæð, fara úr búningsklefum beint ofan í lón og þægilegra aðgengi.“

Öll núverandi starfsemi færist yfir nýja 2.700 fermetra byggingu. Engin starfsemi verður þá í gömlu húsunum, þau verða lögð af og ekki notuð áfram. „Og hvað við gerum þar í framhaldi er ekki alveg ákveðið.“

Hellir sem opnaðist óvænt í grunni húsanna tafði framkvæmdir
Framkvæmdirnar tóku óvænta stefnu í vor þegar stór hellir opnaðist fyrir tilviljun í grunni húsanna. Honum var fljótlega lokað en Guðmundur segir að þetta hafi haft talsverð áhrif. „Það tafði fyrir verkefninu og breytingar sem við þurftum að gera á allri byggingunni.“ Gengið hafi verið úr skugga um að fleiri hella sé ekki að finna undir húsunum og burðarþol hafi verið tryggt.

Stefnt að verklokum vorið 2025
Um 180.000 gestir sækja Jarðböðin árlega og Guðmundur segir fulla þörf á stækkun. „Við erum bjartsýn fyrir framhaldinu og eigum von á örlítilli fjölgun á gestum, en erum sátt við það sem við erum með í dag.“ Áætlað er að framkvæmdir standi í um eitt og hálft ár til viðbótar og stefnt er að því að taka nýjan stað í notkun á vormánuðum 2025.

Heimild: Ruv.is