Home Fréttir Í fréttum Undirbúa sig fyrir næsta kafla í nýju húsi

Undirbúa sig fyrir næsta kafla í nýju húsi

110
0
Morten Þór Szmiedowicz og fjölskylda horfast nú, líkt og svo margir Grindvíkingar, í augu við nýjan veruleika. Hús þeirra brann til grunna þegar byrjaði að gjósa við bæjarmörkin og nú leita þau sér að nýju húsi. RÚV – Viðar Hákon Söruson

Eigandi húss sem fór undir hraun í gosinu við Grindavík segir vissan létti fólginn í að húsið skuli hafa brunnið til grunna. Hann segist alltaf ætla að geyma lykilinn að húsinu en brátt taki við nýr kafli við hjá fjölskyldunni – í nýju húsi.

<>

Grindvísk fjölskylda sem missti húsið sitt undir hraun er byrjuð að leita að nýju heimili. Aleiga þeirra kemst orðið fyrir í tíu ferðatöskum.

Morten Þór Szmiedowicz og fjölskylda voru stödd á pílumóti þegar heimili þeirra, Efrahóp 18, fór undir hraun úr eldgosinu við bæjarmörk Grindavíkur.

Ákveðinn léttir en líka skelfileg upplifun
Hann segir tilfinningarnar blendnar. „Fyrstu tilfinningarnar voru léttir,“ segir Morten. Eyðileggingin á húsinu hafi útrýmt ákveðinni óvissu, til dæmis um hvort hægt yrði að flytja í það á ný. „En á nákvæmlega sama tímapunkti er þetta skelfileg upplifun því við misstum allt sem við eigum.“

Ég held án gríns að ég kæmi öllu sem við eigum, fyrir utan náttúrlega ökutækjunum, í mögulega tíu ferðatöskur.

Húsið að Efrahópi 18 hannaði og byggði Morten sjálfur. „Ég steypti upp sökkulinn sjálfur, reisti alla veggi sjálfur.“ Hann segir að í ljósi þess og hve mikið fjölskyldan hafði gert heimilið að sínu, sé sérstaklega erfitt að horfa á eftir því brenna til kaldra kola.

Húslykillinn geymdur um ókomna tíð
Morten heldur enn upp á húslykilinn að Efrahópi. „Ég hef ekki enn þá tímt að henda honum. Og ég held að hann verði bara á lyklakippunni það sem eftir er. Það er allavega eitthvað sem maður tekur með sér. Þó að það sé ekki mikið.“

Hús Mortens og fjölskyldu er það sem brennur hægra megin á myndinni.
RÚV – Guðmundur Bergkvist

Og þó fjölskyldan vilji helst hvergi annars staðar vera en í Grindavík er svo komið að leita þarf á ný mið – að minnsta kosti í bili. Fjölskyldan skoðar því fasteignir í Þorlákshöfn. Þeim líst vel á bæinn og segja hann minna á Grindavík að ákveðnu leyti. Fyrst og fremst vill fjölskyldan flytja á svæði þar sem jarðhræringa er ekki að gæta.

Fréttastofa fylgdi fjölskyldunni í fasteignaskoðun í Þorlákshöfn. Þeim líkaði eignin vel en enn var alls óvíst hvort gert yrði tilboð í hana. Á næstu dögum verða fleiri hús skoðuð.

Heimild: Ruv.is