Home Fréttir Í fréttum Varavatnsból Suðurnesja tilbúið

Varavatnsból Suðurnesja tilbúið

66
0
Hér er borholuhús yfir aðra af tveimur nýjum borholum við varavatnsbólið við Árnarétt. Á myndinni eru Jón Ben Einarsson, byggingafulltrúi Suðurnesjabæjar, Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Magnús Stefánsson, bæjarstjóri Suðurnesjabæjar, Jóhann Friðrik Friðriksson, stjórnarformaður HS Veitna og Páll Erland, forstjóri HS Veitna. Mynd – HS Veitur

HS Veitur hafa lokið við gerð nýs vatnsbóls við Árnarétt í Garði sem gæti nýst Suðurnesjafólki ef jarðhræringar koma í veg fyrir vatnsflutninga úr vatnsbólinu að Lágum.

<>

Eitt af stærstu áhyggjumálum fyrir íbúa Suðurnesja í aðdraganda eldgosanna við Sundhnjúksgíga var möguleg áhrif á neysluvatnsbólið að Lágum í Svartsengi.

Nú hafa HS Veitur komið upp nýju vatnsbóli við Árnarétt í Garði sem mun geta þjónustað íbúa svæðisins ef allt fer á versta veg.

Í tilkynningu frá HS Veitum segir að ef neysluvatn hefði farið af svæðinu hefði orðið neyðarástand bæði fyrir íbúa og fyrirtæki á Suðurnesjum.

Því hafi verið ráðist í að koma upp varavatnsbóli og hafa framkvæmdir staðið stanslaust frá 20. nóvember við Árnarétt. Þar var áður ein borhola en tveimur hefur nú verið bætt við og tengdar dælum.

Bólið er nú tilbúið og getur skilað allt að 100 lítrum á sekúndu. Til samanburðar nota Reykjanesbær og Suðurnesjabær að jafnaði um 170 lítra á sekúndu, þar af fara rúmir 70 lítrar til stórnotenda.

Kostnaður er áætlaður um 140 milljónir króna.

Heimild: Ruv.is