Reykjavíkurborg hefur markað íhaldssama stefnu þegar kemur að niðurrifi húsa. „Hið æskilega er að nýta húsnæði sem nú þegar er til staðar, viðhalda og lengja líftíma þess,“ segir í nýlegri umsögn verkefnastjóra skipulagsfulltrúa.
Verkefnastjórinn var hér að fjalla um fyrirspurn Byggingarstjórans ehf., dags. 13. nóvember 2023, um breytingu á deiliskipulagi Grensásvegar 44-50 vegna lóðarinnar nr. 50 við Grensásveg.
Hún felst í að rífa núverandi byggingu á lóðinni og að reisa í staðinn fjölbýlishús, samkvæmt tillögu Atelier arkitekta.
Beiðni um niðurrif var hafnað þótt ástandsskoðun hafi leitt í ljós að húsið er mjög illa farið og viðgerðir kosti tugi milljóna.
Leiða má hugann að því hvort þessi verndarstefna muni hafa áhrif á þéttingu byggðar í Reykjavík. Mörg eldri hús hafa verið rifin á undanförnum árum og stór fjölbýlishús risið í þeirra stað. Mun þetta breytast? Og hvers vegna fá sumir að rífa og byggja en aðrir ekki? Á jafnræðisreglan við hér?
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í gær, laugardag.
Heimild: Mbl.is