Home Fréttir Í fréttum Stórt skref í átt að nýrri þjóðarhöll

Stórt skref í átt að nýrri þjóðarhöll

83
0
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri við undirritun samnings hjá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands í dag

Stofnað hefur verið félag sem mun standa að byggingu nýrrar þjóðarhallar í innanhússíþróttum í Laugardal, Þjóðarhöll ehf.

<>

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fjármála- og efnahagsráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri undirrituðu samning milli ríkis og Reykjavíkurborgar um stofnun félagsins í dag.

Fyrsta verk Þjóðarhallar ehf. er að efna til forvals og samkeppni um hönnun og byggingu þjóðarhallarinnar.

Auk þess tekur félagið við verkefnum framkvæmdanefndar um þjóðarhöll í Laugardal sem lætur af störfum.

Stórbætt aðstaða fyrir alþjóðlega keppnisviðburði, íþróttafélög og skólabörn

Í samningnum er byggt á tillögum starfshóps um undirbúning uppbyggingar þjóðarleikvanga í íþróttum. Höllin mun rísa sunnan við Laugardalshöll upp að Suðurlandsbraut og verður 19.000m2 að stærð.

Samkvæmt frumathugun framkvæmdanefndar er miðað við að byggingin muni taka 8.600 manns í sæti og allt að 12.000 á tónleika. Til samanburðar rúmar Laugardalshöll 5.500 gesti hið mesta.

Einhugur ríkir um að mannvirkið muni nýtast vel sem þjóðarhöll í íþróttum og uppfylli allar kröfur sem gerðar eru til alþjóðlegra keppnisviðburða.

Þjóðarhöllin mun stórbæta aðstöðu fyrir íþróttafélög og skóla í nágrenni Laugardals fyrir kennslu, skólaíþróttir, æfingar og keppni. Þá verður þjóðarhöllin mikilvæg miðstöð fyrir afreks- og almenningsíþróttir og mun nýtast fyrir viðburði tengdum menningu og atvinnulífi.

Kostnaður í samræmi við notkun

Eignarhlutur ríkisins við stofnun félagsins er 55% og eignarhlutur Reykjavíkurborgar er 45%. Kostnaðarskiptingin byggist á úttekt á þörfum hvors aðila fyrir sig á notkun þjóðarhallarinnar.

Stofnun félagsins um byggingu þjóðarhallar byggist á viljayfirlýsingu milli ríkis og Reykjavíkurborgar frá 6. maí 2022, stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og samstarfssáttmála meirihluta borgarstjórnar.

Hann byggist einnig á heimild í fjárlögum fyrir 2024 um stofnun félags um þjóðarhöll og upplýsingum úr frumathugun framkvæmdanefndar um þjóðarhöll í Laugardal sem kynnt var þann 16. janúar 2023.

Mikilvæg uppbygging til framtíðar

Laugardalshöll hefur þjónað þjóðinni vel en uppfyllir ekki þær kröfur sem gerðar eru til alþjóðakeppni í dag. Tímabært er að ráðast í hönnun á nýju mannvirki, uppbyggingu til framtíðar sem eykur samkeppnishæfni borgar og þjóðar á alþjóðavísu.

Hjarta íþróttastarfs á Íslandi verður áfram í Laugardalnum með stórbættri aðstöðu fyrir alla notendur og almenning og samnýtingu á þeim mannvirkjum sem fyrir eru.

Heimild: Stjornarradid.is