Home Fréttir Í fréttum Hundruð í­búða byggðar í Skeiða og Gnúp­verja­hreppi

Hundruð í­búða byggðar í Skeiða og Gnúp­verja­hreppi

179
0
Haraldur Þór Jónsson, sveitarstjóri Skeiða og Gnúpverjahrepps, sem segir að mikil uppbygging sé fram undan í Árnesi. MAGNÚS HLYNUR HREIÐARSSON

Hundruð íbúða verða byggðar í þéttbýliskjarnanum Árnesi í Skeiða og Gnúpverjahreppi í tengslum við virkjanir í sveitarfélaginu og opnun Fjallabaðanna og Gestastofu í Þjórsárdal. Þá er búið að ákveða að byggja íþróttahús í Árnesi og stækka skólann þar.

<>

Það er ekkert lát á uppbyggingu í Skeiða og Gnúpverjahreppi því þar eru alltaf einhver spennandi verkefni í gangi.

Nú er verið að vonast til að Hvammsvirkjun verði að veruleika og þá er verið að byggja Fjallaböðin í Þjórsárdal, ásamt gestastofu á svæðinu. Haraldur Þór Jónsson, sveitarstjóri segir að allt þetta kalli á húsnæði fyrir starfsfólk og aðrar sem vilja flytja í sveitarfélagið. Árnes sé sá staður sem á að byggja upp.

„Við erum hér inn í Árnesi að fara að skipuleggja mikla byggð. Nú eru Fjallaböðin komin af stað hér í undirbúningi, sem opna hér 2026 en það munu hátt í annað hundruð störf skapast þar.

Hér erum við að fara að skipuleggja byggð fyrir hundruð íbúða og við erum að fara næsta sumar að hefja byggingu á íþróttahúsi og stækka grunnskólann, þannig að það er fjölmargt fram undan,“ segir Haraldur.

Þetta hljómar allt mjög spennandi.

„Já, já, það eru spennandi tímar fram undan. Svo náttúrulega á sama tíma þá eru helstu virkjanaframkvæmdir, sem eru að fara af stað, þær eru að fara að eiga sér stað á þessu svæði, þannig að það verða gríðarleg umsvif hér, bæði í virkjanaframkvæmdum, samgöngum og svo uppbyggingu á íbúðum,“ segir Haraldur enn fremur.

Hundruð íbúða verða byggðar í Árnesi á næstunni ef allt gengur upp.
MAGNÚS HLYNUR HREIÐARSSON

En hvaða fólk mun byggja og flytja í Árnes?

„Það verður nú væntanlega að megninu til það fólk, sem mun starfa við þau störf, sem skapast hérna. En það er náttúrulega mikið af störfum, sem eru að fara að skapast hér, staðbundin störf með tilkomu uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu,“ segir Haraldur Þór.

Heimild: Visir.is