Home Fréttir Í fréttum Seldu fokhelt hús með tapi eftir að verðið rauk upp eins og...

Seldu fokhelt hús með tapi eftir að verðið rauk upp eins og eldflaug

301
0
Mynd: RÚV – Hjalti Haraldsson

Hjón sem fengu einbýlishúsalóð úthlutað í Hafnarfirði seldu húsið með tapi eftir að kostnaður við framkvæmdirnar jókst verulega. Þau voru sýknuð af kröfu um greiðslu síðustu reikninganna eftir að þeim var stefnt fyrir dóm.

<>

Áform hjóna um að byggja sér einbýlishús í Hafnarfirði enduðu fyrir dómstólum þegar kostnaðurinn jókst til muna og deilur hófust um hver bæri ábyrgð. Húsið var á endanum selt fokhelt fyrir minni pening en fólkið hafði greitt fyrir það.

Fólkið fékk úthlutað einbýlishúsalóð í Hafnarfirði fyrir þremur árum og leitaði til verktaka til að fást við framkvæmdina. Enginn skriflegur samningur var gerður um verkið en fólkið og verktakinn áttu í miklum skriflegum samskiptum, einkum í upphafi.

40 milljóna hækkun á hálfu ári
Þegar komið var fram í apríl í hittifyrra fóru að renna tvær grímur á kaupendurna. Þá bárust nýir reikningar og var húsið orðið mun dýrara en lagt var upp með.

Eiginmaðurinn sendi tölvupóst á verktakann og sagðist ekki skilja hvernig kostnaðaráætlun hafi hækkað um 40 milljónir króna á hálfu ári. Hann sagði að allt í einu hefðu borist stórir reikningar og fólkinu þá orðið ljóst að verkið væri komið 30 milljónir fram úr áætlun án nokkurra viðvarana.

Hjónin settu því verkstopp á framkvæmdina og sögðu að kostnaður hefði rokið upp eins og eldflaug. Þau greiddu ekki þá reikninga sem bárust um þessar mundir.

Stefnt fyrir dóm
Þetta sætti verktakinn sig ekki við og næstu mánuði var reynt að leysa málið með aðkomu lögmanna. Það gekk ekki og var fólkinu því stefnt fyrir dóm til greiðslu reikninga upp á rúmar 15 milljónir króna.

Það var þó ekki verktakinn sem það gerði heldur annað fyrirtæki sem var í eigu lögmannsstofu sem vann fyrir verktakafyrirtækið. Það var þá farið á hausinn.

Í stefnunni sagði að verktakinn hefði ekki tekið að sér heildarverktöku heldur aðeins byggingarstjórn sem hefði þróast út í milligöngu um greiðslu til hluta verktaka. Það hafi hann gert en væntanlegir húseigendur borgað seint og illa. Verktakinn hafi enga kostnaðaráætlun gert heldur aðeins aðstoðað kaupendur við gerð hennar.

Þessu andmælti fólkið. Það sagði reikninga hafa borist seint og benti á samskipti við verktakann og banka til marks um að byggingastjórinn hefði gert kostnaðaráætlunina. Sjálf hafi þau síðan ekki verið upplýst um aukinn kostnað þrátt fyrir leiðbeiningarskyldu seljanda við aðstæður sem þessar.

Hækkun reikninga skýrði verktakinn með því að kostnaður hefði aukist um 25 til 75 prósent á ýmsum liðum.

Hækkunin vegna vinnu verktaka eða þeirra sem hann samdi við
Dómari við Héraðsdóm Reykjaness fór yfir samskipti byggingastjórans og fólksins í upphafi ferlisins um væntanlegan kostnað við framkvæmdina.

Dómarinn sagði að það hafi í öllum meginatriðum verið í höndum byggingastjórans að setja fram tölulega kostnaðaráætlun. Þar breytti engu að mati dómarans þótt kaupandinn hafi sett upp Excel-skjal sem sent var banka vegna fjármögnunar.

Dómarinn taldi að í kostnaðaráætluninni væru líka liðir sem hefðu getað leitt til lækkunar.

„Seljandi upplýsti stefndu ekki á neinum tíma um að verðið hefði hækkað, þótt sú hækkun væri ýmist vegna hans eigin þjónustu eða þjónustu annarra sem hann hafði ráðið til verksins og innheimti greiðslur fyrir,“ segir í dóminum.

Fólkið var því sýknað af kröfu fyrirtækisins um greiðslu reikninga upp á fimmtán milljónir króna. Í niðurlagi dómsins kemur fram að fólkið seldi húsið fokhelt á mun lægra verði en það hafði greitt fyrir gerð hússins fram að því. Dómari tekur fram að stefnandi hafi ekki gert athugasemd við söluverðið og því megi ætla að það hafi ekki verið óraunhæft miðað við það sem búið var að framkvæma.

Heimild: Ruv.is