Home Fréttir Í fréttum Breytingar á byggingarreglugerð

Breytingar á byggingarreglugerð

276
0
Mynd: Golli

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hefur gefið út reglugerð um breytingu á byggingarreglugerð nr. 112/2012, með það að markmiði að einfalda ferli við uppbyggingu smádreifistöðva sem meðal annars stuðlar að hraðari orkuskiptum og uppbyggingu.

<>

Með reglugerð nr. 360/2016 var gerð breyting á byggingarreglugerð þar sem bætt var ákvæði þar sem smádreifistöðvar fyrir raforkudreifingu, dæluhús hita-, vatns- og fráveitu og önnur lítil hús veitukerfa þar sem flatarmál var að hámarki 15m2 og hæð að hámarki 2,5 m voru undanþegin byggingarleyfi.

Framkvæmdirnar voru þó tilkynningaskyldar.

Í nóvember 2021 var þessi undanþága felld í brott með reglugerð nr. 1321/2021 en eftir sem áður var gert ráð fyrir að smádreifistöðvar myndu falla undir almenna undanþágu smáhýsa.

Það hefur ekki gengið eftir í framkvæmd og hafa byggingarfulltrúaembætti túlkað breytinguna með þeim hætti að smádreifistöðvar séu byggingarleyfisskyldar framkvæmdir sem hefur þyngt leyfisferli vegna smáhýsa veitna.

Eftirfarandi breytingar eru því gerðar á 2.3.6. gr. reglugerðarinnar og inn kemur sambærilegt ákvæði og var áður í gildi:

  • Nýr stafliður bætist við 1. mgr.: Smádreifistöðvar fyrir raforkudreifingu, dæluhús hita-, vatns- og fráveitu og önnur lítil hús veitukerfa sem eru að hámarki 15 m² og mesta hæð þaks er 2,5 m mælt frá yfirborði jarðvegs.
  • Breyting er gerð á orðalagi 1. mgr. Í stað orðanna „Hún skal vera í samræmi við“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: „Hún skal ekki vera í ósamræmi við“. Orðalagið er þannig skýrara og kveðið á um að framkvæmd skuli ekki vera í ósamræmi við deiliskipulag.

Reglugerðin er sett á grundvelli 1. mgr. 60. gr. laga um mannvirki, nr. 160/2010 og hefur þegar öðlast gildi.

Heimild: Stjornarradid.is