Gagnaver við rætur Hlíðarfjalls á Akureyri gæti meira en tvöfaldast að stærð, gangi áform fyrirtækisins AtNorth eftir. Bæjarráð tekur málið til umfjöllunar eftir áramót.
Fyrirtækið AtNorth hyggst meira en tvöfalda stærð gagnavers sem reis á Akureyri á síðasta ári. Gangi það eftir gætu framkvæmdir hafist strax á næsta ári.
AtNorth er stærsti rekstraraðili gagnavera hér á landi og tók sitt þriðja gagnaver formlega í notkun á Akureyri í sumar. Fyrirtækið hefur aukið umsvif sín á gagnaversmarkaði Norðurlandanna hratt síðustu ár. Gangi áform þeirra eftir opna þau sitt tíunda gagnaver á Norðurslóðum í Finnlandi 2025.
12 milljarða króna stækkun
Gagnaverið á Akureyri er engin smásmíði, 2.500 fermetrar og orkuþörfin allt að sex megavött þegar vinnsla verður komin á fullan skrið um mitt komandi ár.
Nú hefur fyrirtækið sótt um meira pláss við rætur Hlíðarfjalls og umsókn um lóðina liggur hjá bæjarráði.
Skipulagsráð vísaði umsókninni þangað þar sem það taldi sig ekki hafa forsendur til að taka upplýsta ákvörðun um bygginguna, ekki síst þar sem ekki lægi fyrir hve orkufrek hún yrði og hver áhrifin gætu orðið á aðra stórnotendur við Eyjafjörð. Áætlað er að framkvæmdirnar kosti um 12 milljarða.
Orkuþörfin allt að fjórtán megavött
Í svari AtNorth við fyrirspurn fréttastofu segir að verði af byggingu þriggja húsa til viðbótar við þau tvö sem gagnaverið hefur í dag gæti orkunotkunin orðið allt að fjórtán megavött.
Áætlað er að eftirspurn stórnotenda eftir raforku aukist mikið á næsta ári og fram kom í fréttum okkar í gær að Landsvirkjun rekti það að mestu til gagnavera.
Allt plássið í fyrstu húsunum þegar selt
Talsmaður AtNorth segir rekstur þeirra á Norðurlandi hafa gengið vonum framan, það sem af er.
„Allt pláss sem byggt var í fyrsta áfanga gagnaversins nú þegar selt og verður komið í fulla notkun um mitt næsta ár. Er ánægjulegt að geta þess að um 30% af plássinu er seldur til innlendra aðila“, segir Bylgja Pálsdóttir, samskiptastjóri AtNorth.
Bæjarráð tekur stækkun gagnaversins á Akureyri fyrir á næsta fundi sínum eftir áramót.
Yfir 70 störf og fleiri ef verður af stækkun
Fyrirtækið segir fyrirséð að þurfi að auka verulega við mannafla þeirra, verði byggingarnar þrjár reistar á næsta ári.
„Það fer eftir viðskiptavinum hver endanleg starfsmannaþörf verður. Það hafa verið allt að 70 starfsmenn og verktakar í gagnaverinu á þessu ári og við reiknum við auknum fjölda á næsta ári í tengslum við uppbygginguna.
Okkar þjónusta, sem er ofurtölvuþjónusta, er mannaflsfrekari en hefðbundin gagnaversþjónusta, sem skapar aukin verðmæti fyrir félagið og samfélagið allt.“
Bylgja segir eftirspurn eftir gagnavers- og ofurtölvuþjónustu hafa aukist gríðarlega og gera þau ráð fyrir áframhaldandi vexti á komandi árum.
Heimild: Ruv.is