Home Fréttir Í fréttum Íbúðakjarni á Seyðisfirði verði tilbúinn næsta sumar

Íbúðakjarni á Seyðisfirði verði tilbúinn næsta sumar

85
0
Mynd: Austurfrett.is

Vonir standa til að íbúðakjarni með átta íbúðum og samkomurými, sem er í byggingu á Seyðisfirði, verði tilbúinn næsta sumar. Talsverðar tafir hafa orðið á verkinu.

<>

Það er Hrafnshóll sem byggir kjarnann fyrir leigufélagið Brák, sem er í eigu sveitarfélaganna í landinu en Húsnæðis- og mannvirkjastofnun annast umsýslu félagsins.

Á ýmsu hefur gengið með íbúðakjarnann frá því stofnframlögum var fyrst úthlutað til hans árið 2020. Meiri vinnu þurfti við grunn en reiknað var með auk þess sem byggingakostnaður hækkaði þannig framlögin dugðu ekki áður en verkefnið komst á skrið. Úr þeim hnúti var loks greitt sumarið 2022 og þá fyrsta skóflustungan tekin.

Þá stóð til að byggingin yrði tilbúin í mars á þessu ári en af því varð ekki. Húsið er hins vegar komið upp úr jörðinni.

Samkvæmt upplýsingum frá HMS var húsinu lokað að utan nýverið þannig að eftir áramót er hægt að vinna í því innanhúss og gera klárt fyrir innréttingar. Vonast er til að hægt verði að afhenda íbúðirnar í sumar.

Elmar Erlendsson, framkvæmastjóri lánasviðs HMS, segir að verktakinn hafi borið við að óhagstætt veðurfar í byrjun verks hafi tafið það verulega. Íbúðirnar standa á gamla knattspyrnuvellinum og er vonast til að í sumar verði þar einnig hægt að vinna í lóðum og malbika götur í sumar.

Heimild: Austurfrett.is