Sr(r)int Studio ehf. fyrir hönd Hauks Geirs Garðarssonar, eiganda Laugavegs 2, óskar eftir afstöðu skipulagsyfirvalda í Reykjavík til þess að heimila breytingu á deiliskipulagi Laugavegs- og Skólavörðustígsreita. Nái þessi áform fram að ganga verður mikil breyting á ásýnd eins fjölfarnasta og þekktasta götuhorns höfuðborgarinnar.
Markmið deiliskipulagsbreytingar væri að reisa byggingu sem trappast frá brunagafli á Skólavörðustíg niður að Laugavegi, fellur vel að núverandi byggð og fullklárar samskeyti Skólavörðustígs og Laugavegs, segir í bréfi Sp(r)int til borgarinnar.
Eigandi Laugavegs 2 hafi lengi viljað fara í þessar breytingar enda sé ásýnd brunagaflsins og útisvæðið þar í kring í sorglegu ástandi.
Með tilkomu nýrrar endurhönnunar á göngugötu Skólavörðustígs gefist tækifæri til að hanna og þróa með Reykjavíkurborg nýtt spennandi rými nátengt almenningsrýmum og göngugötum á einum fjölfarnasta stað Reykjavíkur.
„Slík nálgun er til að stuðla að bættu aðgengi og sjálfbærum lífsstíl innan bæjarhlutans ásamt því að bjóða upp á fjölbreytta afþreyingu fyrir íbúa hverfisins og fegrun umhverfisins,“ segir m.a. í bréfinu.
Markmið deiliskipulagsbreytingar væri einnig að fá heimild til að auka byggingarmagn á lóðinni frá 513 fermetrum í 600 sem felst í því að byggja við brunagaflinn á Skólavörðustíg í sömu hæð og nágrannabygging sem og bæta við inndregna aukahæð við Laugaveg miðað við núverandi deiliskipulag.
Í dag er Laugavegur 2 tvö hús, timburhúsið á horninu (reist 1887) og steinsteypt viðbygging að austanverðu (reist 1916) á tveimur hæðum og 60 fermetrar að stærð.
Steinsteypt viðbyggingin á lóðinni sé illa farin og komin til ára sinna og tími kominn á umfangsmiklar endurbætur og framkvæmdir ef eignin á að henta fyrir íbúðarhúsnæði, verslun eða skrifstofur samkvæmt nútíma kröfum og reglugerðum.
Slíkar endurbætur yrðu bæði flóknar og kostnaðarsamar og sé því mikilvægt með framtíðar nýbyggingu á lóðinni að hún falli vel inn í það umhverfi og byggðamynstur sem er til staðar ásamt því að stuðla að betri nýtingu lands.
Timburhúsið á Laugavegi 2 var friðað af menntamálaráðherra 8. desember 2003 samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um húsafriðun, nr. 104/2001, og ekki er meiningin að hrófla við því heldur halda því vel við en það var allt málað fyrir skömmu.
Núgildandi deiliskipulag (frá 2002) segir að fjarlægja megi steinsteypta viðbyggingu við Laugaveg 2 og byggja tveggja hæða byggingu með risi og kjallara og byggja út lóðina í suður.
Hafa ber í huga að steinsteypta húsið er í dag yfir 100 ára gamalt en í lélegu ástandi og með aðgengisvandamál.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út 21. desember.
Heimild: Mbl.is