Home Fréttir Í fréttum Matsáætlun fyrir ofanflóðavarnir í sunnanverðum Seyðisfirði lögð fram

Matsáætlun fyrir ofanflóðavarnir í sunnanverðum Seyðisfirði lögð fram

40
0
Mynd: Austurfrett.is

Áætlun fyrir mat á umhverfisáhrifum ofanflóðavarna í sunnanverðum Seyðisfirði hefur verið skilað inn til Skipulagsstofnunar.

<>

Áformað er að fara í rannsóknir fyrir umhverfismatið sjálft næsta sumar.

Matsáætlunin er opin til umsagnar meðal almennings til áramóta en eftir það skilar stofnunin áliti á henni. Í henni eru útlistaðir helstu umhverfisþættir sem reiknað er með að framkvæmdirnar hafi áhrif á og hvernig ætlað sé að kanna þá.

Áhrifasvæðið nær yfir 70 hektara lands í Neðri-Botnum og ofan sunnanverðs Seyðisfjarðar. Þar er áætlað að reisa fimm leiði- og þvergarða upp á samtals 1,4 km að lengd milli Búðarár og Dagmálalækjar.

Hluti þeirra bráðavarna sem reistar voru eftir skriðurnar í desember 2020 nýtast í þessum framkvæmdum.

Auk varnargarðanna á að gera drenskurði, afléttingarholur, setja upp grjóthrunsnet og styrkja jarðveg með öðrum leiðum eða veita vatni frá svæðinu til að auka stöðugleika þess.

Víkka þarf og styrkja farvegi lækja og áa. Fram kemur að þarna sé búið að setja upp viðamesta vöktunarkerfi landsins sem sé á pari við það sem gerist við sambærilegar aðstæður erlendis.

Ljóst er að framkvæmdirnar munu hafa áhrif á votlendi og skógrækt auk þess sem nánasta umhverfi Búðarárfoss nýtur verndar.

Áætlað er að mat Skipulagsstofnunar liggi fyrir í janúar. Næsta sumar er áformað að fara í rannsóknavinnu og skila eiginlegu umhverfismati næsta haust.

Álit Skipulagsstofnunar á því liggi síðan í kringum áramótin 2024/5.

Fram kemur að áætlaður framkvæmdatími við varnirnar sé tvö ár og hægt sé að hefjast handa þegar öll leyfi liggi fyrir.

Heimild: Austurfrett.is