Tækjastjórum sem hafa verið að vinna við varnargarðana í kringum Svarstengi hefur verið gefið grænt ljós að rjúfa Grindavíkurveg sé þörf á því og eru þeir þegar byrjaðir að ýta efni í skarðið þar sem Grindavíkurvegur fer í gegnum varnargarðinn að norðan. Þetta segir Arnars Smára Þorvarðarsonar, byggingatæknifræðings hjá Verkís, en hann er einn umsjónarmanna verksins.
Þrátt fyrir að mögulega takist að koma í veg fyrir að hraun flæði að Svartsengi gæti hitaveitulögn frá Svartsengi að Reykjanesbæ orðið næst á vegi hraunsins, en það myndi stöðva heitavatnsrennsli til bæjarins.
Vinna á stóru ýtunum við að fylla í skarðið
Arnar segir að ekki sé enn búið að rjúfa veginn, en að almannavarnir hafi gefið grænt ljós til þess. Einn starfsmaður Verkís fór með Landhelgisgæslunni áðan til að skoða vettvanginn, eftir að vinnusvæðið hafði verið rýmt þegar byrjaði að gjósa.
Einhverjir starfsmenn eru farnir af svæðinu, en hann segir tækjastjóra á stóru ýtunum nú vinna við að fylla í skarðið við Grindavíkurveg.
Flestir garðar tilbúnir
Varnargarðarnir skiptast í L1, L2, L3, L4, L5 og L6. Strax í upphafi var lögð áhersla á L1 og L6, en L1 er fyrsti hluti varnargarðarins vestan við Sýlingafell að norðan.
Þar er nú gert ráð fyrir að hraunið muni fyrst renna áður en það fer yfir Grindavíkurveg. Eins og fyrr segir er nú unnið að því að fylla upp í skarðið milli L1 og L2 garðanna og samhliða því mögulega rjúfa Grindavíkurveg.
Þeir garðar sem eru fullkláraðir í dag eru allir garðar utan L4 að sögn Arnar, fyrir utan fyrrnefnt skarð við Grindavíkurveg og skarð við hitaveitulögn.
Hitaveitulögnin óvarin
Eins og sjá má á kortinu er þó aðeins hálfur sigur unninn ef tekst að varna hrauninu að renna inn skarðið að Svartsengi. Aðeins vestar er nefnilega heitavatnslögnin sem liggur frá Svartsengi að Reykjanesbæ og útvegar bænum heitt vatn.
Arnar segir að í raun sé ekki hægt að verja lögnina sjálfa. Hún liggi þvert á rennslisstefnu hraunsins ef það fer þessa leið. „Þá er ekkert hægt að gera til að verja lögnina,“ segir hann. Bendir hann á að ekki sé hægt að moka efni ofan á lögnina því hún þoli það ekki.
HS veitur höfðu þegar hafið vinnu við að undirbúa niðurgrafna lögn. Sú vinna var í undirbúningi og vélar voru tilbúnar til að grafa skurði, en ekki var komið efni á staðinn.
Heimild: Mbl.is