Home Fréttir Í fréttum Búa til eldiviðarkubba úr sagi og afskurði

Búa til eldiviðarkubba úr sagi og afskurði

163
0
Mynd: Austurfrett.is

Fyrirtækið Skógarafurðir í Fljótsdal undirbýr nú framleiðslu á eins konar eldiviðarkubbum sem gerðir eru úr sagi og afskurði sem fellur til til aðra starfsemi. Meðal annars þarf að finna íslenskt hugtak yfir þessa nýju afurð.

<>

„Það falla til hjá okkur 1,5-2 tonn af sagi og afskurði á dag. Við höfum notað afskurð til að kynda húsin okkar og þurrklefa.

Í fyrra keyptum við nýja rammasög og þá jukust afköstin. Þótt við höfum fjölgað þurrklefum þá höfum við ekki undan við að brenna afskurðinum.

Við glímum líka við að nýtingarhlutfall úr íslenskum trjám er lægra en erlendis því þau eru þannig vaxin. Þau verða þannig dýrara hráefni því við kaupum meira inn og um leið fellur til meira af afskurði.

Við þurftum að hugsa hvernig hægt væri að búa til verðmæti úr afskurðinum og ákváðum þá að fara að framleiða þessa eldiviðarkubba,“ segir Bjarki Jónsson, framkvæmdastjóri Skógarafurða.

Um er að ræða harðpressaða kubba úr þessum hliðarafurðum. „Við kurlum allan afskurðinn. Hann og sagið eru síðan þurrkuð áður en þau fara í 80 tonna pressu sem pressar þau í kubbana. Úr því verður til alveg hrein vara.“

Leita að íslensku heiti
Á ensku er talað um „sawdust logs“ eða „briquetts“. Skógarafurðir standa því fyrir leik á Facebook-síðu sinni með leit að íslensku hugtaki. Valið verður úr tillögunum 20. desember. „Við erum komin með yfir 120 tillögur á þremur dögum, sem er langt umfram það sem við væntum.“

Hjá Skógarafurðum er verið að ljúka vöruþróuninni en stefnt er á að kubbarnir komi á markað snemma á næsta ári.

Til þess fengu Skógarafurðir hæsta styrkinn sem veittur var fyrirtæki úr Uppbyggingarsjóði Austurlands fyrir viku. „Við erum að finna nafn á vöruna og hanna umbúðirnar.

Við verðum með pappaumbúðir sem hægt er að nota í uppkveikju. Það verða þrír kubbar saman í pakka og þeir duga í eina kvöldstund. Þess vegna verður ekkert rusl sem fylgir vörunni.“

Möguleiki á útflutningi
Eldiviðurinn verður í sölu í Byko, Bauhaus og Elma studio á Egilsstöðum en mögulega verður hann einnig fluttur erlendis. Þótt sagkubbar séu ekki þekktir hérlendis þá eru þeir mikið notaðir til hitunar annars staðar.

„Þessir kubbar eru mest innflutti eldiviðurinn í Danmörku og Þýskalandi. Þeir hafa þá kosti fram yfir annan eldivið að þeir eru mun þurrari. Þurrkstig þeirra er 8% en venjulegs eldiviðar 15-18%. Vegna þurrkunarinnar og pressunarinnar verður bruninn hreinni og orkugildið hærra.“

Heimild: Austurfrett.is