Home Fréttir Í fréttum Tjónið í Grindavík gæti numið allt að 10 milljörðum

Tjónið í Grindavík gæti numið allt að 10 milljörðum

88
0
Sprungur eru víða í Grindavík. RÚV – Ragnar Visage

Framkvæmdastjóri Náttúrhamfaratryggingar Íslands segir tjónið á mannvirkjum í Grindavík gæti numið allt að 10 milljörðum króna. Erfitt er að hefja greiðslu tjónabóta fyrr en búið er að skera úr um það hvaða svæði í bænum séu hæf til búsetu.

<>

Náttúruhamfaratryggingum hafa borist tilkynningar um tjón á 230 eignum í Grindavík. Búið er að skoða um 140 þeirra og Hulda Ragnheiður Árnadóttir framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratrygginga Íslands vonast til þess að lokið verði skoðun á þeim 90 sem eftir eru í vikunni. Hún segir erfitt að meta kostnaðinn.

„Miðað við okkar yfirsýn á vátryggðum tjónum er það einhvers staðar á bilinu 6-8 milljarðar en það getur alveg teygst upp í kannski allt að 10 milljarða“, segir Hulda Ragnheiður.

Meta þarf hvar búa má í framtíðinni
Byrjað var að skoða mestu skemmdu eignirnar en Hulda Ragnheiður segir að fleiri eignir hafi bæst við á síðustu dögum. Hún segir að unnið sé af kappi við að safna gögnum og ná utan um heildarmyndina. Aðstæðurnar séu óvenjulegar því tjónið hafi átt sér stað á löngum tíma.

„Þess vegna er erfitt að byrja að greiða út bæturnar á meðan ekki hefur verið skorið úr um það hvaða svæði eru hæf til búsetu.“

Hún segir að meta þurfi hvar má búa í framtíðinni til þess að hægt sé að ráðstafa þeim tjónabótum sem greiddar verði út.

Hulda Ragnheiður Árnadóttir framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratrygginga Íslands.
RÚV – Bragi Valgeirsson

Viljum gera þetta í sem mestri sátt við íbúa

Hafa Grindvíkingar þrýst á um greiðslur?

„Mér finnst fólkið sýna ótrúlega mikinn skilning á þeim aðstæðum sem uppi eru. Ég vona að allir geri sér grein fyrir að við vinnum alla daga vikunnar frá því að atburðurinn varð og reynum að gera þetta eins fljótt og möguleg er.

Okkar markmið er að gera þetta í eins mikilli sátt við fólkið sem hlut á að máli eins og hægt er. Þau verða bara að treysta því að við gerum það sem við getum á hverjum tíma.“

Ekki hægt að byggja á öllum lóðum í bænum

Hver eru helstu álitamálin sem þið standið frammi fyrir?

„Það sem er eiginlega einstakt að við erum núna í fyrsta sinn með jarðskjálftasvæði þar sem er ljóst að það verður ekki hægt að heimila byggingu á öllum þeim lóðum sem tjón hefur orðið á. Við höfum ekki staðið frammi fyrir sambærilegum stærð af atburði þar sem óvissan er jafn mikil.

Hvernig hægt er að hefja viðgerðir og er hægt að reikna með áframhaldandi búsetu. Flóknustu málin eru þar sem tjón hefur orðið lítið og lágu hlutfalli af heildarvirði hússins en er afskaplega ógáfulegt að reikna með að tjónabæturnar verði nýttar til að gera við eignina eins og lögin segja til um. Markmiðið núna er að reyna að finna út úr því álitaefni áður en lengra er haldið.“

Bæjarmyndin í Grindavík breytist
Á þeim stöðum sem má ekki byggja á standa hús? „Það er einmitt það sem við höfum verið að vinna að núna um helgina er að við erum að reyna að varpa skýrari mynd á þessar aðstæður. Við vitum til þess að ráðherrar fá þetta til umsagnar og ákvörðunar eftir helgi“.

Það er því nokkuð ljóst að bæjarmyndin í Grindavík á eftir að breytast?

„Ég held að það sé óhjákvæmilegt að bæjarmyndin muni breytast með einhverju móti. Allar þær ákvarðanir sem verða teknar eru á verksviði Grindavíkurbæjar í samráði við vísindamenn og ríkisstjórn. Við tökum við þeim upplýsingum sem út úr því kemur og vinnum þær áfram“.

Heimild: Ruv.is