Home Fréttir Í fréttum Undirgöng við Arnarneshæð senn fullkláruð

Undirgöng við Arnarneshæð senn fullkláruð

155
0
Undirgöngin eru 27 m á lengd, 7 m á breidd og 3 m á hæð.

Vinna við ný undirgöng við ð í Garðabæ, fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur, er á lokametrunum. Áætlað er að taka göngin í fulla notkun fyrir árslok.

<>

Um er að ræða mikla samgöngubót, enda leiðin um Arnarneshæðina ein af fjölförnustu stofnæðum fyrir hjólandi umferð á höfuðborgarsvæðinu. Göngin eru hönnuð þannig að þau eru opin og björt og liggja vel í landinu.

Við hönnun ganganna var mikið lagt upp úr því að þau væru aðlaðandi fyrir vegfarendur. Göngin eru bæði stærri og bjartari en hefðbundin undirgöng.

Aðskildir stígar eru í gegnum göngin.

Á þaki þeirra er stórt ljósop sem hleypir dagsbirtunni inn í göngin og auk þess eru þau með góðri led-lýsingu. Göngin eru um 27 metrar að lengd, 7 metrar á breidd og 3 metrar á hæð.

Þegar undirgöngin eru komin í fulla notkun verða komnir tveir aðskildir stígar, annar fyrir gangandi og hinn fyrir hjólandi vegfarendur.

Stígarnir eru lægri en sú brekka sem áður þurfti að fara um og vegfarendur þurfa ekki lengur að þvera umferðargötu á leið um Arnarnesið. Þannig hafa undirgöngin í för með sér meiri þægindi og bætt umferðaröryggi fyrir þá sem eiga þarna leið um.

Fyrir stuttu hófst hönnun á nýjum, aðskildum göngu- og hjólastígum sem munu koma í framhaldi af undirgöngunum, bæði norðan og sunnan við þau.

Að endingu er stefnt að aðskildu stígakerfi meðfram öllum Hafnarfjarðarveginum um Hafnarfjörð, Garðabæ, Kópavog og Reykjavík og er þessi framkvæmd því hluti af stærri heildarmynd.

Vinna við undirgöngin hófst í júní í fyrra en Vegagerðin samdi við Bjössa ehf. um framkvæmdir. Fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir að göngin yrðu opnuð fyrir umferð í janúar á þessu ári.

Hins vegar urðu nokkrar tafir sem helst má rekja til þess að langur frostakafli síðasta vetur hafði mikil áhrif á framvindu framkvæmda.

Göngin eru björt og hleypa inn dagsbirtu.

Þegar kuldakastið skall á átti eftir að steypa ákveðnar undirstöður og veggi, sem ekki var hægt að gera vegna veðurs. Þetta var á viðkvæmum tíma í verkinu og varð til þess að aðrir verkþættir frestuðust að sama skapi.

Vegagerðin og Garðabær hafa unnið saman að þessum framkvæmdum, sem heyra undir Samgöngusáttmála ríkisins og sveitarfélaganna sex á höfuðborgarsvæðinu.

Markmiðið með Samgöngusáttmálanum er m.a. að stuðla að greiðari samgöngum og fjölbreyttum ferðamátum á höfuðborgarsvæðinu, með jafnri uppbyggingu innviða allra samgöngumáta.

Heimild: Vegagerdin.is