Home Fréttir Í fréttum Vitnamál í héraðsdómi vegna skemmdu vatnslagnarinnar til Eyja

Vitnamál í héraðsdómi vegna skemmdu vatnslagnarinnar til Eyja

75
0
mynd: Rúv

Vestmannaeyjabær og HS Veitur hafa sent Héraðsdómi Suðurlands beiðni um sjópróf vegna skemmda sem urðu á einu neysluvatnslögn bæjarins. Tveir eru með réttarstöðu sakbornings í rannsókn lögreglu á slysinu sem er einnig rannsakað af RNSA.

<>

Þann 14. desember verður þingfest í Héraðsdómi Suðurlands beiðni Vestmannaeyjabæjar og HS Veitna um að fram fari svokallað sjópróf vegna skemmda sem urðu á neysluvatnslögninni til Vestmannaeyja þegar akkeri skipsins Hugins VE dróst eftir lögninni. Huginn er í eigu Vinnslustöðvarinnar og útgerðin sagði upp tveimur skipstjórum eftir slysið.

Þótt sjóprófið sé á borði dómstóla er enginn ágreiningur um að það verði haldið, segir Birgir Tjörvi Pétursson, lögmaður Vestmannaeyjabæjar og HS Veitna. „Þetta er í raun vitnamál, þarna verða allir kallaðir til sem geta varpað ljósi á hvað gerðist. Það er enginn dómur sem fellur og það kemur enginn úrskurður.“

Eftir prófið geta menn fengið endurrit af vitnaleiðslum og í framhaldinu lagt mat á sína réttarstöðu. Dómurinn verður sennilega skipaður sérfróðum meðdómendum. Ekki liggur fyrir hvenær vitnaleiðslurnar sjálfar fara fram.

Lögreglan í Vestmannaeyjum er sömuleiðis með sína rannsókn. Karl Gauti Hjaltason, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, segir í samtali við fréttastofu að ekki sé búið að taka skýrslur af öllum í áhöfn Hugins.

Tveir séu með réttarstöðu sakbornings, það sé ekkert óeðlilegt og alltaf gert „ef það er minnsti möguleiki á einhverju refsiverðu.“ Réttarstaðan tryggi þeim öll réttindi. Fram hefur komið í fréttum að atvikið sé meðal annars rannsakað sem mögulegt gáleysisbrot.

Þriðja rannsóknin á óhappinu er í höndum rannsóknarnefndar samgönguslysa. Nefndin hefur þegar farið í vettvangsrannsókn.

Þeirri rannsókn er eingöngu ætlað að leiða í ljós hvað gerðist með það að markmiði að draga úr hættu á því að samskonar slys verði.

Samkvæmt lögum er ekki heimilt að nota skýrslur nefndarinnar um rannsókn á einstökum slysum eða atvikum sem sönnunargögn í dómsmálum.

Hættuástandi var lýst yfir í Vestmannaeyjabæ þegar í ljós kom að skemmdirnar á lögninni voru það miklar að raunveruleg hætta var á því að hún gæti rofnað. Á annan tug kafara hafa á síðustu dögum unnið að því að festa vatnsleiðsluna betur niður að ráði framleiðanda.

Heimild: Ruv.is