Home Fréttir Í fréttum Ó­vissan heldur á­fram um út­boð næstu jarð­ganga

Ó­vissan heldur á­fram um út­boð næstu jarð­ganga

154
0
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra. ARNAR HALLDÓRSSON

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra vísar því til Alþingis að ákvarða hvort bíða eigi með útboð næstu jarðganga þar til séð verður hvernig ný bortækni reynist. Hann vonast til að það skýrist fyrir vorið hvernig jarðgangaáætlun verður fjármögnuð.

<>

Í fréttum Stöðvar 2 var fjallað um þá óvissu sem ríkir um jarðgangagerð á Íslandi. Viðræður stjórnvalda við bandaríska fyrirtækið Earthgrid vekja spurningu um hvort bíða eigi með útboð næstu jarðganga þar til séð er hvort kyndilborun reynist raunhæf til að stórlækka kostnað.

Frá undirritun viljayfirlýsingar í Vestmannaeyjum síðastliðið sumar um mögulega notkun kyndilborunar við jarðgangagerð á Íslandi. Frá vinstri: Björgmundur Örn Guðmundsson, fulltrúi EarthGrid, Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
STJÓRNARRÁÐIÐ

„Við sjáum auðvitað hvort þessi tækni virkar í febrúar eða mars á næsta ári. Við erum með samgönguáætlun núna hjá þinginu og þar á meðal þessa jarðgangaáætlun. Þannig að þetta er soldið verkefni sem þingið þarf að kljást við. Og ætli ég sé nokkuð að leggja það á þingið að segja nákvæmlega hvað mér finnst um það,“ segir Sigurður Ingi.

Jarðgangagerð hefur núna legið niðri hérlendis í yfir þrjú ár eða frá því Dýrafjarðargöng voru opnuð í október 2020. Fjarðarheiðargöng boðin út 2022, sagði Vegagerðin í frétt á heimasíðu sinni fyrir tveimur árum. Enn bólar ekkert á útboði þessa nærri fimmtíu milljarða króna verkefnis. Ástæðan: Óvíst er hvernig eigi að fjármagna göngin.

Svona er gangamunni Fjarðarheiðarganga í Seyðisfirði teiknaður.
VEGAGERÐIN

Ráðherrann segir beðið tillagna verkefnastjórnar um veggjöld af bílaumferð en ríkisstjórnin stefnir að því að frumvarp um málið komi fyrir Alþingi í vetur og fáist samþykkt.

„Það væri auðvitað æskilegt að það gæti gerst fyrir vorið til þess að þær gætu ratað inn í næstu fjárlög,“ segir Sigurður Ingi.

En er þá að orðið ólíklegt að jarðgangagerð verði boðin út á næsta ári? Ráðherrann vill ekki útloka útboð á næsta ári, það væri hægt á grundvelli samgönguáætlunar.

„Við erum með ákveðna fjármögnun í gangi innan hennar, meðal annars til jarðganga. Jú, jú, það er hægt að fara af stað. En af þeim krafti sem metnaðarfull jarðgangaáætlun kallar á, það verður auðvitað ekki hægt fyrr en við vitum hvernig við fjármögnun það til enda.“

Göngin undir Fjarðarheiði milli Egilsstaða og Seyðisfjarðar yrðu 13,3 kílómetra löng.
VEGAGERÐIN

Fjarðarheiðargöng til Seyðisfjarðar eru næst á dagskrá, samkvæmt tillögu að samgönguáætlun.

„Einu jarðgöngin klár til útboðs, það eru Fjarðarheiðargöng. Önnur munu þurfa að fara í umhverfismat og aðeins lengri hönnun.“

Ráðherrann vísar því til Alþingis ef breyta eigi forgangslistanum.

„Þetta er auðvitað ekki auðvelt verkefni þegar við erum að horfa á svona risastórar, bæði framkvæmdir og kostnaðartölur. En ég treysti alveg þinginu til þess að glíma við það,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra í frétt Stöðvar 2, sem sjá má hér.

Heimild: Visir.is