Framkvæmdir eru hafnar við viðgerð á Austurvegi þar sem stóra sprungan myndaðist sem sést hefur á forsíðum helstu miðla heimsins.
Þegar fréttastofa átti leið hjá í Grindavík í dag voru tvær gröfur við störf og vörubílar. Enn rýkur úr holunni en talið hefur verið að reykurinn sé af völdum heitavatnslagna sem hafa farið í sundur.
Sömuleiðis er verið að skoða stöðuna á raflögnum neðanjarðar. Hér má sjá myndband frá framkvæmdunum í dag.
Að neðan má sjá myndband af sprungunni úr lofti þann 13. nóvember.
Sprungan hefur valdið miklu tjóni á bæði vegum og fjölmörgum húsum í bænum. Fram hefur komið að mjög litlar líkur séu á gosi úr sprungunni. Líkur á gosi yfir höfuð eru taldar minni en meiri öfugt við það sem talið var fyrir rúmum tveimur vikum þegar bærinn var rýmdur.
Hættustig almannavarna er enn í Grindavík og svæðinu í kring.
Heimild: Visir.is