Heimagisting hefur náð nýjum og áður óþekktum hæðum. Það sem af er þessu ári hefur þeim íbúðum sem leigja má út til skammtímadvalar fjölgað um 70 prósent á höfuðborgarsvæðinu. Óverðtryggð lán eru greidd upp sem aldrei fyrr.
Eigendur nærri 3.400 íbúða vítt og breitt um landið hafa fengið leyfi til heimagistingar í allt að þrjá mánuði á ári. Það er helmingi meira en þegar mest var á árunum fyrir faraldur.
Fjölgunarinnar verður ekki síst vart á höfuðborgarsvæðinu, segir Ólafur Þórisson, hagfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. „Þeim hefur fjölgað um 70 prósent það sem af er ári, milli ára. Leyfin voru rúmlega 1.200 í fyrra en eru orðin tæplega 2.200 í ár.“
Svona tölur hafa ekki sést áður. „Nei, þetta eru algjörlega nýjar hæðir sem við erum að ná.“
Um helgina gagnrýndu verkalýðsforkólfur og formenn leigjenda- og íbúasamtaka miðbæjar Reykjavíkur hversu mikið útleiga íbúða á AirBnB hefur aukist. Þetta fær stuðning í nýrri mánaðarskýrslu um húsnæðismarkaðinn og rannsókn meðal leigjenda.
„Þarna er skammtímaleigumarkaðurinn að draga til sín íbúðir sem annars hefðu verið notaðar undir íbúðarhúsnæði,“ segir Ólafur. „Við sjáum þessa þróun líka í leigumarkaðskönnun sem við létum framkvæma á haustmánuðum. Þar hefur þróunin undanfarið verið sú að svarendur telja að framboð af hentugu íbúðarhúsnæði hafi verið að minnka undanfarið.“
Það er ekki aðeins á leigumarkaði sem mikilla breytinga verður vart.Húsnæðiskaupendur færa sig úr óverðtryggðum lánum í verðtryggð sem aldrei fyrr. Uppgreiðslur óverðtryggðra lána hafa þrefaldast á skömmum tíma.
Meirihluti þeirra húsnæðislána sem landsmenn tóku í september fór í að greiða upp eldri húsnæðislán en ekki í húsnæðiskaup. Fólk greiddi upp óverðtryggð lán fyrir 20 milljarða króna, að mestu með því að taka ný verðtryggð lán en að litlum hluta með því að færa sig úr breytilegum vöxtum í fasta á óverðtryggðum lánum.
„Í sögulegu samhengi eru uppgreiðslur óverðtryggðra lána tvöfalt meiri en uppgreiðslur verðtryggðra voru eftir vaxtalækkanir í heimsfaraldrinum,“ segir Ólafur. „Og fjárhæðirnar sem um ræðir núna eru um 20 milljarðar bara í septembermánuði, bara af uppgreiðslu óverðtryggðra lána.“
Hvað kann að skýra þetta?
„Bæði eru óverðtryggð lán á föstum vöxtum að koma til vaxtaendurskoðunar og lántakendur eru þá að færa sig yfir í verðtryggð lán. Eins er það þannig að einstaklingar sem tóku óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum eru þá að færa sig úr háum nafnvöxtum yfir í verðtryggða vexti í auknum mæli.“
Samkvæmt nýrri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er meira jafnvægi að komast á fasteignamarkað. Kaupsamningum fjölgaði um hundrað milli mánaða, einkum vegna kaupa ungs fólks á litlum íbúðum.
Heimild: Ruv.is