Home Fréttir Í fréttum 25 þúsund íbúar geta fengið vatn úr nýju vatnsbóli

25 þúsund íbúar geta fengið vatn úr nýju vatnsbóli

60
0
Páll Erland forstjóri HS Veitna. RÚV – Ragnar Visage

Ef eitthvað kemur fyrir aðalvatnsbólið á Lágum þarf að tryggja íbúum á svæðinu aðgang að neysluvatni. Borun fyrir köldu vatni er því hluti af neyðaráætlun um varavatnsból og neyðarhitaveitu ef náttúruhamfarir hafa áhrif á starfsemina í Svartsengi.

<>

Í gær hófst borun fyrir köldu vatni í nýju varavatnsbóli fyrir Suðurnes við Árnarétt sem liggur í heiðinni milli Garðs og Sandgerðis í Suðurnesjabæ.

Að verkinu vinna HS Orka og HS Veit­ur í nánu sam­starfi við Orku­stofn­un og Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, en verkið er hluti af neyðaráætlun um varavatnsból og neyðarhitaveitu ef náttúruhamfarir hafa áhrif á starfsemina í Svartsengi.

Páll Erland, forstjóri HS Veitna var gestur í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun og ræddi þetta verkefni meðal annars.

Heita vatnið er erfiðasta viðfangsefnið
Páll segir 25 þúsund íbúa auk fyrirtækja geta fengið neysluvatn frá þessu vara vatnsbóli. Að auki hafi rafmagn verið í styrkingu, verið sé að koma upp auka spennum, strengir lagðir og ýmis búnaður bættur sem gerir þeim kleift að stýra rafmagninu í þessu ástandi.

Hann segir heita vatnið vera erfiðasta viðfangsefnið í neyðaráætluninni en geysilega mikil orka og afl sé falið í heita vatninu og ekkert kerfi sé til staðar eins og er til að leysa það af hólmi.

Starfsmenn HS Veitna bora fyrir varavatnsbóli fyrir Reykjanes og Suðurnesjabæ í Árnarétt á heiðinni á milli Garðs og Sandgerðis.

HS veitur undirbúa að setja upp neyðarkyndingu í samvinnu við HS Orku og stjórnvöld
Neyðarkyndingin byggir á því að olíukatlar myndu framleiða heitt vatn fyrir svæðið ef það myndi hætta að berast frá Svartsengi, segir Páll. Olíukatlarnir séu ekki til á landinu og þetta sé verkefni sem tæki talsverðan tíma, jafnvel nokkra mánuði, en þess vegna þurfi að byrja núna.

Hann segir einnig að neyðarkyndingin sé hugsuð sem skammtímalausn en til lengri tíma þurfi að sjá til þess að fjöldi íbúa fái heitt vatn frá fleiri en einum stað og þá gæti Reykjanesvirkjun verið kostur.

Veitukerfin eru mjög löskuð
Páll segir aðspurður hvort einhver mynd eða sýn sé komin á umfang skemmda í Grindavík að þau séu búin að vinna að því að halda uppi heitu vatni og rafmagni á bænum eins og hægt er þrátt fyrir erfiðar aðstæður.

Það hafi að mestu tekist vel og þar sinni þau því verkefni áfram en það liggi fyrir að veitukerfin séu mjög löskuð á svæðinu eftir þessa stóru jarðskjálfta og þau eigi eftir að ná að meta umfangið fyllilega.

Heimild: Ruv.is