Home Fréttir Í fréttum Búið að leggja línurnar að 60 prósent af varnargörðunum

Búið að leggja línurnar að 60 prósent af varnargörðunum

137
0
Við gerð varnargarðanna við Grindavík. – Vilhelm Gunnarsson

Framkvæmdir á varnargörðum á Reykjanesskaga eru komnar vel áleiðis. Unnið er allan sólarhringinn með stórvirkum vinnuvélum í kappi við kvikuhreyfingar. Afköstin síðustu daga eru á við margra mánaða virkjanaframkvæmdir.

<>

Búið er að leggja línurnar að 60 prósent af varnargörðunum sem eiga að verja orkuverið í Svartsengi, Grindavík og Bláa lónið.

Fyrsta varnarlínan við Sundhnúk, tveggja til þriggja metra hár kantur, er kominn upp. Sú lína, sem er austasti hluti varnargarðsins, var í forgangi.

Vegna landriss í Svartsengi var hafin vinna í dag á garðinum vestan við orkuverið og Bláa lónið.

Ari Guðmundsson, sviðsstjóri hjá Verkís sem stýrir verkefninu, segir að gerð varnargarðsins þurfi að sjálfsögðu að taka mið af nýjum gögnum. Verkefnið hreyfist með landinu.

Í kappi við kvikuhreyfingar
Gerð varnargarðsins á Reykjanesskaga er ein stærsta varnaraðgerð á landi í sögu Íslands.

Unnið er allan sólarhringinn með stórvirkum vinnuvélum í kappi við kvikuhreyfingar í von um að geta varið mikilvægustu innviði suðvesturhornsins.

Hvernig eru varnargarðarnir fjármagnaðir?
Með gjaldi á húseigendur næstu þrjú ár. Gert er ráð fyrir að verkefnið kosti 2,5-3 milljarða.

Alþingi samþykkti að leggja á árlegt forvarnargjald til að fjármagna verkefnið.

Lagt verður árlegt gjald á allar húseignir sem nemur 0,008% af brunabótamati. Tekjur af gjaldinu renna í ríkissjóð.

Verkfræðingar, vísindamenn, hönnuðir, verkstjórnendur hjá verktökum og fleiri koma að þessu verkefni. Samræming milli þessara aðila er lykillinn að farsælli niðurstöðu. Þeir þurfa að hugsa um lagnir, háspennulínur, ofanjarðar hitaveitulagnir, hvernig hægt sé að nýta best hæðir og lægðir landslagsins.

„Það eru alls konar áskoranir og við erum að vinna að lausnum. Við þurfum til dæmis að hækka háspennulínu svo varnargarður fari undir hana. Svo er ein hitaveitulögn sem er ofanjarðar sem fer í gegnum garðinn,“ segir Ari hjá Verkís.

Ari Guðmundsson hjá Verkís stýrir gerð varnargarðanna.
– RÚV

Garðanir eru þrenns konar:

  • varnargarðar sem eiga að hægja á hraunrennsli,
  • leiðargarðar sem beina hrauninu frá innviðum, bænum og (ef eldgos varir lengi) í átt að sjó
  • og skurðir.

Hægt er að byggja varnarstíflur en þær hafa ekki reynst eins gagnlegar og garðar sem stýra flæði hraunsins.

Stærstu verktakar Íslands eru á svæðinu með 25 til 30 vélar sem safna efni, möl og hrauni, og 25 bíla sem keyra með efnið að framkvæmdasvæðinu.

„Þannig hefur unnist meiri hluti úr hrauni en við þorðum að vona.“

Gamla hraunið vörn gegn nýju hrauni
Efnið sem er notað í varnargarðana kemur úr Stapafellsnámu. Afköstin eru reyndar meiri en búist var við þökk sé góðri nýtingu á gömlu hrauni frá síðasta gosskeiði á Reykjanesskaga.

„Við getum ýtt upp hrauni á staðnum,“ segir Ari.

„Þannig hefur unnist meiri hluti úr hrauni en við þorðum að vona. Með því að nýta þetta staðbundna efni verða afköstin meiri. Við erum komin lengra en við áttum von á.“

Stærsta áskorunin er hraðinn sem þarf að vinna verkefnið og auðvitað hættan vegna jarðskjálfta og yfirvofandi eldgoss.

Til að setja þetta tröllvaxna verkefni í samhengi þá er afkastagetan í þessu verkefni á við virkjanaframkvæmdir. En slíkar framkvæmdir eru gerðar á nokkrum mánuðum og árum, ekki dögum.

Gerð varnargarðanna ofan Nátthaga árið 2021
– RÚV

Garðarnir gáfu sig í Eyjum
Gerð varnargarðanna árið 2021 ofan Nátthaga var mikilvægt próf á virkni þeirra. Hraunrennsli úr Meradölum var talsvert og var því varnargörðunum breytt í neyðargarða, sem voru lægri og reistir til að verja framkvæmdasvæðið.

Hér fyrir neðan má sjá myndband af framvindu varnargarðanna ofan Nátthaga árið 2021.

Verkís hannaði þá garða í samstarfi fulltrúa Háskóla Íslands, Veðurstofu Íslands og Eflu.

Hönnuðir nýttu reynslu af varnargörðum á Íslandi og erlendis. Hraunvarnir hafa verið reistar í Sikiley, á Hawaii og í Japan og varnargarðar voru reistir til að verja byggð í Heimaey árið 1973 og í Kröflueldum árin 1975 til 1982.

Birgir Jónsson, jarðfræðingur, fylgdist með gerð og virkni varnargarðanna í Eyjum og leitaði Verkís í hans reynslubrunn varðandi þá, sem og til Pálma R. Pálmasonar.

Hvað verða garðarnir háir?
Fyrsta varnarlínan er 2-3 metra há og verður síðar hækkuð upp í að meðaltali átta metra hæð. Þrátt fyrir að unnið yrði á vöktum og með töluverðum afköstum verktaka má gera ráð fyrir að það taki um 30-40 sólarhringa að fullbyggja garðinn.

Það skiptir máli hvernig efni er notað. Varnargarðarnir gáfu sig í Vestmannaeyjum en þeir voru gerðir úr gjalli; léttu efni með takmarkaða samloðun.

Garðarnir syðst í Meradölum voru úr jarðefni af staðnum; fínefnaríkum brúnleitandi túffsandi, möl og bergbrotum blandað fokmold.

Þeir veita meiri mótstöðu fyrir hraunið en garðarnir sem ýtt var upp í Vestmannaeyjum úr léttum gosefnum.

Heimild: Ruv.is