Home Fréttir Í fréttum Mikilvægt að koma vatnslögninni í lag sem fyrst

Mikilvægt að koma vatnslögninni í lag sem fyrst

44
0
Vatnsleiðslan til Vestmannaeyja skemmdist mikið í óhappi á föstudaginn. Vestmannaeyjar – Aðsend mynd

Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri Vestmannaeyja segir skipta öllu máli að neysluvatnslögnin til Eyja sem skemmdist á föstudag verði löguð sem fyrst. Almannavarnanefnd bæjarins fundar í dag um næstu skref.

<>

Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri Vestmannaeyja segir skipta öllu máli að neysluvatnslögnin til Eyja sem skemmdist á föstudag verði löguð sem fyrst. Almannavarnanefnd Vestmannaeyja fundar í dag um næstu skref.

Togveiðiskipið Huginn VE missti akkeri niður á botn í innsiglingunni í Vestmannaeyjahöfn á föstudagskvöld. Miklar skemmdir urðu við það á um fimmtíu metra kafla á neysluvatnslögninni til Vestmannaeyja.

Leki kom að lögninni, sem er eina flutningsæð neysluvatns til Eyja.

Að sögn Írisar Róbertsdóttur bæjarstjóra heldur almannavarnanefnd bæjarins fund vegna þessa síðdegis. Leiðslan verði skoðuð fyrir fundinn og staðan metin áður en næstu skref verða tekin.

Íris segir að þótt íbúar finni enn ekki fyrir áhrifum þessa sé afar mikilvægt að koma lögninni í lag sem fyrst.

„Það er náttúrulega bara ein neysluvatnslögn, þannig að það skiptir öllu máli að þessar skemmdir sem urðu á lögninni á þessum 50 m kafla verði lagaðar fyrir veturinn.“

Enn sé ekki hægt að segja til um hvenær viðgerð lýkur.

„Það kemur vonandi í ljós eitthvað tímaplan í dag og þá verða HS Veitur búnir að kanna aðstöðuna varðandi viðgerðarskip og efni og annað sem þarf til þess að geta tekið ákvarðanir um viðgerð og tímasett hana og planað .“

Íbúar fá enn neysluvatn þótt ástandið sé alvarlegt.

„Bilunin er á þannig stað að það er hægt að eiga við hana þó það sé kominn vetur af því að hún er inni í innsiglingunni. En ef hún væri fyrir utan værum við í enn verri málum.“

Um kostnaðinn af viðgerðunum segir Íris að þetta sé tryggingamál og verið sé að vinna í því.

Heimild: Ruv.is