Home Fréttir Í fréttum Búið að merkja fyrir varnargarði til að verja byggð í Grindavík

Búið að merkja fyrir varnargarði til að verja byggð í Grindavík

97
0
Mynd: RÚV – Kristján Þór Ingvarsson

Víðir Reynisson segir að búið sé að merkja fyrir varnargarði sem geti varið byggðina í Grindavík komi til goss norðan við hana eins og líklegast er talið að svo stöddu. Líklega munu líða margir mánuðir áður en íbúar geta flutt aftur til Grindavíkur.

<>

Til er hönnun á varnargarði sem myndi verja Grindavík fyrir hraunstraumi og hægt að hefja framkvæmdir við hann fljótt komi upp aðstæður sem á það kalli.

Þetta sagði Víðir Reynisson á upplýsingafundi almannavarna nú eftir hádegi í gær. Hann segir ljóst að liðið geti margir mánuðir áður en íbúar geti flutt aftur til Grindavíkur.

Eftir fundinn sagði Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, útfærslu á því hvernig hægt verði að verja byggðina í Grindavík, eitt af stóru verkefnum almannavarna næstu daga, auk vinnu við skipulag verðmætabjörgunar og langtímaskipulag uppbyggingar.

„Það er búið að merkja legu varnargarðs út frá þessari sviðsmynd að hraun myndi fara að streyma frá þessum stað sem er talinn líklegastur í augnablikinu. Það er ekki farið í neinar framkvæmdir en við erum að bíða eftir nákvæmara hættumati og líkum á því að þetta gæti raungerst.“

Hann segir allt til reiðu til að hefja framkvæmdir þegar upp komi aðstæður sem kalli á það. „Á sama tíma erum við viðbúin í það að þegar byrjar að gjósa á svæðinu, að geta gripið allan þann tækjabúnað sem er þarna, þessar stærstu jarðýtur og beltagröfur og bíla og farið í svona það sem við köllum neyðaraðgerðir til þess að hægja á eða beina hrauninu fram hjá Grindavík.“

Bregðast við gagnrýni á skipulag verðmætabjörgunar
Víðir segist meðvitaður um þá gagnrýni sem skipulag verðmætabjörgunar í Grindavíkurbæ hafi hlotið síðustu daga þar sem sumir íbúar segjast hafa beðið í röð dag eftir dag án þess að fá að vitja eigna sinna.

„Já við höfum tekið þetta alvarlega og í morgun var opnuð sérstök skráningargátt þar sem fólk getur skráð sig og þá teljum við okkur hafa betri möguleika á því að gefa fólki upplýsingar um hvenær það geti komið inn.“

Langt í að Grindvíkingar geti flutt heim
Á fundinum kom fram að margir mánuðir geti liðið áður en mögulegt verði fyrir Grindvíkinga að snúa aftur heim.

„Bara sem dæmi að sem sagt varanlegar viðgerðir á þeim innviðum sem eru grafnir í jörð verður erfitt að fara í fyrr en næsta sumar, það verður hugsanlega hægt að fara í einhverjar bráðabirgðaráðstafanir fyrir einhver hverfi.“

Þannig að við erum þá að tala um að Grindvíkingar flytji heim í fyrsta lagi seint á næsta ári?

„Það er alveg ljóst að einhverjir Grindvíkingar munu ekki komast heim fyrr en einhvern tíma á næsta ári, bæði útaf þessu sem ég nefndi áður og svo eru tugir húsa þannig skemmd að það þarf að fara í talsvert miklar viðgerðir á þeim áður en þau verða íbúðarhæf. Þannig að þetta verður misjafnt. En við erum að tala um mánuði að minnsta kosti.“

Heimild: Ruv.is