Home Fréttir Í fréttum Keyptu öll at­vinnu­rýmin í Borgar­túni 24

Keyptu öll at­vinnu­rýmin í Borgar­túni 24

342
0
Magnús Berg Magnússon, stjórnarformaður Bergeyjar, telur að nýja fjölbýlishúsið verði sterkt kennileiti í Borgartúni. Ljósmynd: Aðsend mynd

Nýstofnað fasteignafélag keypti í haust öll atvinnurýmin á jarðhæð nýja fjölbýlishússins að Borgartúni 24 fyrir 335 milljónir króna.

<>

Fasteignafélagið Bergey keypti á dögunum öll fimm atvinnurýmin á jarðhæð nýja fjölbýlishússins að Borgartúni 24 af framkvæmdaaðilanum EE development ehf. Atvinnurýmin fimm eru samtals um 735 fermetrar og kaupverðið nam 335 milljónum króna.

„Við ætlum að taka okkur tíma í að finna réttu leigutakana og þróa þetta svolítið þolinmótt. Við viljum byggja verkefnið upp á heildstæðan hátt sem hentar vel fyrir húsið, íbúa þess og svæðið í heild.

Við erum núna að stíga fyrstu skrefin í að leita að tilvonandi leigutökum og ræða við áhugaverða rekstraraðila,“ segir Magnús Berg Magnússon, stjórnarformaður Bergeyjar.

Borgartún 24 er 64 íbúða fjölbýlishús á sjö hæðum sem hefur verið í uppbyggingu undanfarin þrjú ár og eru áætluð verklok í byrjun næsta árs. Þegar hafa 18 íbúðir verið seldar.

„Þetta er glæsilegt húsnæði sem við teljum að verði sterkt kennileiti í Borgartúninu. Túnin eru eitt þéttasta svæði Reykjavíkur, ég tala nú ekki um þegar þú bætir við öllum starfsmannafjöldanum í Borgartúni þar sem meðaltekjur eru í hærra lagi.

Um Borgartúnið er mikil umferð bæði af fólki á bifreiðum sem og virkum ferðamátum eins og hjólandi, gangandi og á rafskútum enda góðir hjólainnviðir á svæðinu. Þetta er mjög spennandi eign út frá því og teljum þetta vera eftirsóttar eignir að komast inn í,“ segir Magnús Berg.

„Bilin eru 5 talsins sem geta hentað ólíkum tegundum af rekstri. Þar af er hornplássið á horni Borgartúns og Nóatúns stærst og gæti hentað vel undir til dæmis kaffihús en þar fyrir utan er gert ráð fyrir útisvæði. Við húsið verða svo 30 bílastæði sem nýtast atvinnueignunum og þar að auki er bílastæðakjallari undir húsinu fyrir íbúa hússins.“

Heimild: Vb.is