Home Fréttir Í fréttum Losna við vegakafla sem taldir voru þeir hættulegustu á landinu

Losna við vegakafla sem taldir voru þeir hættulegustu á landinu

131
0
Innviðaráðherra og forstjóri Vegagerðarinnar klippa á borða og opna vegina formlega. RÚV – Ágúst Ólafsson

Miklar samgöngubætur fylgja nýjum vegi sem opnaður var formlega í Austur-Húnavatnssýslu í dag. Heimamenn segjast nú lausir við vegakafla sem taldir voru þeir hættulegustu á landinu.

<>

Það var heldur kalt í Refasveit í dag, en Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, létu það ekki á sig fá þegar þau klipptu á borða og opnuðu þennan veg með formlegum hætti.

Tveir vegir og ný brú yfir Laxá í Refasveit
Eða vegi réttara sagt, því þetta er nýr Þverárfjallsvegur í Refasveit og nýr kafli á Skagastrandarvegi, samtals tæpir 12 kílómetrar. Auk þess var byggð ný brú yfir Laxá í Refasveit. Skagfirskir verktakar hófu þessar framkvæmdir eftir útboð haustið 2021.

Laus við hættulega vegakafla og einbreiða brú
„Ég myndi nú segja að helstu kostirnir væru stóraukið umferðaröryggi,“ segir Halldór Gunnar Ólafsson, oddviti á Skagaströnd. „Við höfum búið við það að keyra um vegakafla sem hefur verið talinn einn sá hættulegasti á landinu og nú losnum við við stórhættulega einbreiða brú og mikið af blindhæðum og hættulegum köflum.“ Og þörfin er brýn en umferð á þessari leið hefur tvöfaldast á síðustu árum og þungaflutningar aukist verulega.

Nýja brúin er sú fjórða sem byggð er á veginum yfir Laxá í Refasveit
RÚV – Ágúst Ólafsson

Ekki síst aukið öryggi fyrir íbúana
Pétur Arason, sveitarstjóri í Húnabyggð, tekur undir það að nýjum vegaköflum fylgi mikið umferðaröryggi og þá ekki síst fyrir íbúa á þessu svæði. „Og ég leyfi mér að vona að þetta verði mögulega nýr þjóðvegur einhvern tíma í framtíðinni þar sem við keyrum kannski í gegnum Sauðárkrók og þaðan norður fyrir. En hvað framtíðin ber í skauti sér veit ég náttúrulega ekki.“

Mikið grjótkast úr nýrri klæðningu og tugir bílrúða brotnað
Það er rúmur mánuður síðan umferð var hleypt á þennan nýja veg og það hefur ekki gengið áfallalaust. Mikið grjótkast hefur orðið úr nýrri klæðningu á veginum og rúður brotnað í fjölda bíla.

Vegagerðinni hafa borist um 20 tilkynningar um tjón af þessum völdum, en talið er að rúður í mun fleiri bílum hafi brotnað. Lengri tíma hefur tekið fyrir efnið í klæðningunni að bindast en búist var við. Ástandið hefur þó lagast mikið og grjótkastið virðist á undanhaldi. Enn er þó 70 kílómetra hámarkshraði á veginum.

Heimild: Ruv.is