Home Fréttir Í fréttum Hægt að verja atvinnusvæðið í Naustahvammi á Norðfirði

Hægt að verja atvinnusvæðið í Naustahvammi á Norðfirði

51
0
Mynd: Austurfrett.is

Tveir 350 metra langir varnargarðar ættu að geta varið allt atvinnusvæðið við Naustahvamm á Norðfirði. Erfitt er að byggja frekari varnir fyrir atvinnusvæði í norðanverðum Seyðisfirði.

<>

Í firðinum sunnanverðum er hægt að gera varnir til að verja frystihúsið og bræðsluna betur en í dag þannig B-svæði stækki.

Þetta kemur fram í skýrslu Veðurstofunnar um stöðu atvinnusvæða sem eru á skilgreindum hættusvæðum vegna snjóflóða og skriðufalla. Drög að skýrslunni voru kynnt sveitarfélögum í sumar en hún, með nánari smáatriðum, er nú orðin aðgengileg almenningi í gegnum Samráðsgátt stjórnvalda.

Í skýrslunni, sem unnin var að beiðni umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, er farið yfir hættusvæðin og hvort sé yfirhöfuð gerlegt að verja þau og metinn fýsileiki þess samanborið við að kaupa upp eignirnar.

Skoðuð eru svæði við tíu byggðarlög á landinu, þar af tvö á Austurlandi, Seyðisfjörð og Neskaupstað.

Varnir fyrir Naustahvamm

Á Norðfirði er Naustahvammssvæðið, fyrir ofan Síldarvinnsluna, ýmist á B eða C svæði, en C er mesta hættusvæðið. Þar er talið hægt að byggja tvo þvergarða, sitt hvoru megin þjóðvegarins, sem myndu verja nær allt það svæði. Garðarnir yrðu um 10 metra háir og 350 langir.

Áætlaður kostnaður við verkið er 1,6 milljarður króna. Það eru dýrustu varnirnar í úttektinni en á móti kemur að þær verja líka verðmætasta svæðið. Þær myndu líka hverja bæði C og B svæði. Spara mætti um 600 milljónir með að byggja styttri garða en þeir myndu þá bara verja C-svæði.

Þar fyrir utan eru meðal annars gamla frystihúsið og geymsluhús, sem tæknilega sérð er hægt að verja en ekki talið kostnaðarins virði. Húsin að Strandgötu 43 og 44 er ekki talið hægt að verja en því er velt upp hvort hægt sé að færa Strandgötu 43 til um 100 metra.

Þá er vakin athygli á að verja þurfi spennistöðina að Strandgötu 81. Þótt brunabótamat hússins sé ekki hátt sé mikilvægt að verja hana, ekki síst í snjóflóðahrinu. Mælt er með að byggja jarðvegsfyllingu upp að húsinu.

Erfitt að koma fyrir vörnum í norðanverðum Seyðisfirði

Staðan er töluvert flóknari á Seyðisfirði enda er þar um að ræða mest af því húsnæði í úttektinni sem Veðurstofan telur ekki hægt að verja. Í norðanverðum firðinum er um að ræða svæðið frá athafnasvæði Stáls og út með. Þar er ekki talið hægt að koma fyrir vörnum sem verja svæðið í heild. Mögulega væri hægt að byggja 75 metra langan varnargarð sem myndi verja húsnæði Stáls en erfitt væri að koma honum fyrir.

Almennt er það álit Veðurstofunnar að varnir á svæðinu væru það mikið dýrari en brunabótamat húsanna að ekki svari kostnaði að verja þau, fyrir utan að það er tæknilega erfitt. Um farfuglaheimili við Ránargötu segir meðal annars að það þyrfti hlutfallslega langan varnargarð. Eins er bent á að annað hús á svæðinu sé skráð sem vinnustofa en notað sem íbúðarhúsnæði, sem sé ekki leyfilegt.

Hægt að verja betur í sunnanverðum Seyðisfirði

Í sunnanverðum firðinum er farið yfir stöðuna undir Strandartindi og Þófum. Þar stendur meðal annars fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar. Þar eru til tillögur að lágum görðum sem beina skriðum í farvegi og halda þeim auk stálþilja eða slíkra veggja fyrir ofan bræðsluna. Eins bætir Veðurstofan nú við hugmyndum um að þurrka upp svæðið fyrir ofan.

Þessar varnir ættu að duga gegn litlum eða meðalstórum skriðum úr Strandartindi og snjóflóðum. Þær veita ekki vernd gegn stórum skriðum úr tindum eða þurrum snjóflóðum. Horft yrði mest til svæða við bræðsluna þar sem fólk væri á ferli. Með þessu væri hægt að koma hluta bræðslunnar á B-svæði fyrir um einn milljarð króna.

Svæðið þar fyrir utan er erfiðra. Um húsnæði þar fyrir utan á vegum LungA-skólans, gömlu netagerðina, segir að það myndi ekki uppfylla kröfur til skólahúsnæðis, jafnvel þótt þar væri reistur veggur. Fimm hús utan Þófalækjar er ýmist talið erfitt að verja eða ekki kostnaðarins virði miðað við brunabótamat og er mælt með að dregið sé úr starfsemi þar.

Frystihúsið allt á B-svæði

Frystihúsið er innan við bræðsluna. Ysti endi þess er á hættusvæði C. Þar stingur Veðurstofan upp á að reisa varnargarð undir Skuldalæk sem leiði vatn út í Hörmungalæk. Það myndi líklega duga til að færa frystihúsið allt á hættusvæði B en það hefur ekki verið fullreynt með hermilíkönum. Framkvæmd er metin á um 250 milljónir króna.

Þar við standa olíugeymar. Ekki er hægt að koma þeim á hættusvæði C en þeir eiga að vera sérstaklega styrktir til að þola ofanflóð. Veðurstofan veltir upp þeim möguleika að þeir verði að fullu grafnir í jörðu.

Þá sendir Veðurstofan sveitarfélögunum pillu fyrir að hafa ekki á síðustu árum stýrt uppbyggingu atvinnuhúsnæðis inn á öruggari svæði. Eystra er komið inn á skólahúsnæðið og íbúðina sem uppfylli ekki reglugerðir.

Á Norðfirði er það netagerðin sem reist var á á uppfyllingu á B-svæði en hefði átt að vera neðan B-svæðis, þar sem um áður óbyggt svæði var að ræða.

Heimild: Austurfrett.is