„Óvissan kostar óhagræðingu. Það kostar það að við getum ekki gert framtíðarplön,“ segir hafnarstjóri
Gunnar Tryggvason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, segir í samtali við Fiskifréttir að óvissa um hönnun Sundabrautar hamli skipulagi á hafnarsvæðinu.
Ekki hefur verið ákveðið hvort Sundabraut liggi um göng undir Kleppsvík eða um lágbrú þar yfir.
„Óvissan kostar óhagræðingu. Það kostar það að við getum ekki gert framtíðarplön,“ segir Gunnar.
Höfnin er byrjuð að gera áætlanir í samræmi við úttekt sem ráðgjafafyrirtækið Drewry Consulting gerði á því hvernig höfnin gæti hagað farmsvæðunum og þjónustu við skipafélög með tilliti til þess að lágbrú verði fyrir valinu enda myndu göngin ekki hafa mikil áhrif á höfnina.
„Þannig að við erum að undirbúa okkur undir það sem hefur mest áhrif. Það gæti þó kannski verið besta leiðin fyrir höfnina að fá lágbrú ef það eru réttar fébætur fyrir það sem fer forgörðum og við fáum þróunarsvæði fyrir utan brú,“ segir Gunnar.
Gunnar segir að lágbrú yrði góð að því leyti að hún myndi tengja hafnarsvæðið betur við baklandið sitt. „Kosturinn við göngin er að þau myndu ekki raska hafnarstarfseminni neitt á byggingartímanum,“ segir hann.
Faxaflóahafnir hafa nú sent formlegt erindi með ósk um viðræður um framhaldið. „Það er tvennt sem við erum að leita eftir og segjum við Vegagerðina og borgina: Ekkert vera feimin að ræða við okkur. Það eru engar tilfinningar bundnar hafnarbökkum. Það er allt leysanlegt og við viljum vera lausnamiðuð,“ segir Gunnar.
Ef vilji sé til að fara ódýrari leiðina, sem sé lágbrúin, þá sé hægt að ræða um hvað sé eðlilegt að Faxaflóahafnir fái í bætur fyrir það sem fari forgörðum og fái síðan þróunarsvæði fyrir utan brú.
Hægt er að lesa viðtal Fiskifrétta við Gunnar hér.
Heimild: Vb.is