Home Fréttir Í fréttum Formleg opnun tveggja nýrra vega og brúar

Formleg opnun tveggja nýrra vega og brúar

228
0
Mynd: Vegagerðin / Loftmyndir

Á mánudaginn, 6. nóvember klukkan 14:30, munu Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, opna formlega Þverárfjallsveg í Refasveit og Skagastrandarveg um Laxá.

<>

Klippt verður á borða við ný gatnamót Þverárfjallsvegar og Skagastrandarvegar. Framkvæmdir við nýju vegamannvirkin hófust haustið 2021 og voru áætluð verklok í nóvember 2023. Umferð var hleypt á nýja veginn í síðasta mánuði og undanfarið hefur verið unnið að frágangi.

Ný gatnamót frá Hringvegi inn á Þverárfjallsveg. Mynd: Vegagerðin

Verkið var boðið út sumarið 2021 og tilboð opnuð 17. ágúst. Þrjú tilboð bárust og var samið við Skagfirska verktaka sem áttu lægsta tilboð upp á tæplega 1,5 milljarða króna eða 108% af kostnaðaráætlun. Heildarkostnaður var áætlaður um 2,2 milljarðar fyrir utan verðbætur. Að Skagfirskum verktökum standa þrjú skagfirsk verktakafyrirtæki; Steypustöð Skagafjarðar, Víðimelsbræður og Norðurtak.

Framkvæmdin snerist um byggingu nýs Þverárfjallsvegar í Refasveit frá Hringvegi norðan Blönduóss að núverandi Þverárfjallsvegi, um 8,5 km að lengd.

Einnig byggingu nýs Skagastrandarvegar frá Þverárfjallsveginum, yfir nýja brú, að núverandi Skagastrandarvegi norðan við Höskuldsstaði í Skagabyggð, um 3,3 km að lengd. Heildarvegalengd nýrra vega og brúar er um 11,8 km en einnig voru byggðar nýjar tengingar og heimreiðar, samtals um 4,5 km að lengd.

Á Skagastrandarvegi var byggð ný 106 metra löng brú yfir Laxá á Refasveit. Brúin er í þremur höfum, steinsteypt og eftirspennt. Hún er fjórða brúin sem byggð er yfir Laxá á svipuðum slóðum.

Ný tvíbreið brú yfir Laxá á Refasveit. Mynd: Vegagerðin

Sú fyrsta var byggð 1876 og var 13 metra löng timburbrú sem var yfir þröngt gil sem nefnist Ámundahlaup og er vestan við nýju brúna. Næsta brú var byggð á árunum 1924-1927, var það járnbent steinbogabrú. Þriðja brúin var byggð árið 1973, 75 metra löng, einbreið bitabrú.

Vegnúmer breytast við þessar framkvæmdir. Nýi langi stofnvegurinn sem er 8,5 km verður hluti af Þverárfjallsvegi með nýju vegnúmeri 73.

Nýi kaflinn með nýrri brú yfir Laxá verður þá fyrsti hluti Skagastrandarvegar sem hefur númerið 74. Gamli Skagastrandarvegurinn frá Hringvegi að Laxá mun fá heitið Refasveitarvegur en auk þess verður lagður af einn héraðsvegur, Neðribyggðarvegur númer 741.

Heimild: Huni.is