Tafir hafa orðið á framkvæmdum við tröppurnar frægu upp að Akureyrarkirkju. Samkvæmt áætlun verða tröppurnar tilbúnar í fyrsta lagi næsta vor.
Ekki verður hægt að ganga upp ný og endurbætt þrep að Akureyrarkirkju, fyrr en í fyrsta lagi næsta vor. Akureyringar segjast vonsviknir yfir töfunum.
Í sumar hófust verktakar handa og grófu burt illa farnar tröppurnar, sem lágu upp að þekktasta kennileiti Akureyrarbæjar. Áætlað var að nýjar tröppur yrðu tilbúnar í október, en nú er veturinn skollinn á og enn langt í land.
„Af því við erum orðin sein með þetta erum við að hugsa um að láta forsteypa þrepin í efri hlutann og það verður bið á því fram að næsta vori, þá hífum við tröppurnar bara niður, um leið og hægt er vegna veðurs“, segir Sigurður Gunnarsson, verkefnastjóri nýframkvæmda hjá Akureyrarbæ.
140 milljóna króna tröppur
Framkvæmdirnar við tröppurnar eru ekkert smáræði, þær kosta Akureyrarbæ í kring um 140 milljónir. Svo er þetta líka í hjarta bæjarins þar sem að heimamenn sem og ferðamenn, eru mikið á ferli en vegna framkvæmdanna getur verið erfitt að komast leiðar sinnar. Akureyringar sem urðu á vegi fréttastofu á dögunum sögðust vonsviknir yfir því að biðin lengist eftir nýjum tröppum.
Hugmyndir voru einnig uppi um byggingu veitingastaða neðan við tröppurnar, en það rými keypti fasteignafélagið Reginn síðasta sumar. Ekki liggur fyrir enn hvað verður úr því.
Sigurður segir áætlanir hafa miðast við að allt gengi fullkomlega, en ýmislegt reyndist verr farið en talið var áður en verkið hófst.
Hann segist telja óvissuatriðunum fara fækkandi eftir því sem líður á framkvæmdina. Hann segir það raunhæfa áætlun að hægt verði að ganga upp og niður tröppurnar næsta vor.
Heimild: Ruv.is