Þeir sem farið hafa nýlega um Víkurveg í Grafarvogshverfi í Reykjavík hafa vafalaust tekið eftir þeim miklu framkvæmdum sem þar eiga sér stað og áhrifum þeirra á umferðina.
Stærri ökutæki á borð við rútubíla og strætisvagna hafa lent í talsverðu basli við að keyra um framkvæmdasvæðin – fest sig á nýlögðum umferðareyjum og keyrt niður nýsteypta götukanta.
Ökumenn minni bifreiða hafa ekki síður lent í vandræðum, einkum við bráðabirgðaumferðarljósastýringu við gatnamót Víkurvegar, Borgavegar og Fossaleynis. Svo mikil eru vandræðin á köflum að segja má að eins konar stjórnleysi ríki.
Margir eru, ef marka má þá umræðu sem átt hefur sér stað á facebooksíðu íbúa í Grafarvogi, mjög ósáttir við framkvæmdirnar og vandræðin sem þeim fylgja.
Alger hörmung
„Öll þessi framkvæmd er alger hörmung,“ segir einn. „Við erum að verða vitni að algerum hálfvitagangi og skemmdarverki á veginum,“ segir annar og heldur áfram: „Vegurinn var bara mjög góður áður.“
Enn annar veltir upp „hvernig í ósköpunum“ svona framkvæmd geti haldið áfram. „[Þ]egar allir sem hafa hvolpavit sjá hvers konar drullumix þessi framkvæmd er í alla staði. Hvaða bjáni teiknaði þetta svona upp eða er þetta bara hannað klukkutíma fyrir klukkutíma?“ spyr hann.
Þeir sem ekki lesa um pirringinn á samfélagsmiðlum verða vitni að honum í umferðinni, enda eru ökumenn margir ósparir á bílflautuna.
Strætó stoppar alla umferð
Á heimasíðu Reykjavíkurborgar segir að framkvæmdin feli í sér gerð hringtorgs á gatnamótum Víkurvegar og Borgavegar í stað ljósastýrðra gatnamóta og stækkun á núverandi hringtorgi á Víkurvegi við innkeyrslu á lóð Egilshallar.
Þá hefur einnig útskot fyrir strætó við stoppistöð á Borgavegi verið fjarlægt og þarf strætó því nú að stoppa á götunni til að hleypa farþegum inn og út úr vagninum.
Stoppistöðin er staðsett skammt frá nýgerðu hringtorgi við gatnamót Víkurvegar og stöðvar strætó því ósjaldan alla bílaumferð um hringtorgið og Víkurveg að hluta. Þessar tafir valda vafalaust pirringi hjá mörgum vegfarendum.