Home Fréttir Í fréttum Flygildi koma auga á leka í hitaveitum

Flygildi koma auga á leka í hitaveitum

90
0
Mynd: Ruv.is

Drónar sem hafa sést yfir Akureyri og Ólafsfirði geta numið minnsta leka með hitamyndavélum. Þetta eykur nýtingu á heita vatninu, segir umhverfisráðgjafi.

<>

Íbúar á Akureyri og Ólafsfirði hafa orðið varir við flygildi yfir bæjunum að undanförnu. Þetta eru þó ekki fljúgandi furðuhlutir, heldur drónar í leit að leka í hitaveitukerfum.

Drónunum er flogið yfir byggðina, þar sem þeir mynda með hitamyndavélum úr 50 metra hæð. Þeir geta numið minnstu hitafrávik og þar með leka í kerfinu. Það er umhverfisverkfræðistofan ReSource International sem annast lekaleitina fyrir hönd Norðurorku.

„Þessi hitafrávik geta þá sagt okkur frá því hvort það sé leki á hitaveitulögnunum eða skemmd í einangruninni til dæmis. En þetta hefur allt saman áhrif á töp í kerfinu. Þannig reynum við að aðstoða hitaveitur eins og Norðurorku við að minnka töp eins og þeir geta,“ segir Marteinn Möller, umhverfisráðgjafi og landfræðingur hjá ReSource International.

Mynd: Ruv.is

En hvernig væri þetta gert ef tækninnar nyti ekki við?

„Ef þú værir ekki með dróna, þá þyrftirðu væntanlega bara að vera með handmyndavélar til dæmis og reyna að finna einhvers konar frávik með þeim. En það er svo gott sem ómögulegt á svona stóru svæði eins og Eyrinni og mikið af pörtum sem er bara ekki hægt að ná til fótgangandi.“

Mynd: Ruv.is

Það er þó ekki aðeins heita vatnið sem myndavélin nemur. Eitt kvöldið festi hún til dæmis á filmu tvo ketti í kvöldgöngu á Akureyri, sem sjá má á myndinni hér fyrir neðan.

Mynd: Ruv.is

Marteinn segir að verkefnið sé mikilvægt, sérstaklega í ljósi ástandsins síðasta vetur þegar heitavatnsskortur varð. Þá þurfti til dæmis að loka sundlaugum.

„Það er hellingur af töpum í kerfinu og við höfum alltaf fundið eitthvað. Þannig að við erum í raun bara að búa til meira heitt vatn, án þess að sækja það upp úr jörðinni. Bara að nýta kerfið betur.“

Mynd: Ruv.is

Heimild: Ruv.is