Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir við hjúkrunarheimili á Húsavík boðnar út

Framkvæmdir við hjúkrunarheimili á Húsavík boðnar út

76
0

Eftir áralanga bið hyllir undir að glæsilegt 60 rýma hjúkrunarheimili rísi á Húsavík.

<>

FSRE hefur óskað eftir tilboðum í byggingu 4.600 fermetra hjúkrunarheimilis á Húsavík. Fáist viðunandi tilboð í byggingarframkvæmdirnar horfir til þess að glæsilegt 60 rýma hjúkrunarheimili opni á Húsavík haustið 2026.

Vinna við verkerfnið hófst hjá Framkvæmdasýslunni árið 2019. Í upphafi stóð til að byggja 23 rýma hjúkrunarheimili á Húsavík. Við frumathugun kom í ljós að hagkvæmara væri að bæta við rýmum og stendur nú til að heimilið rúmi 60 heimilismenn.

Á fyrri hluta árs 2020 fór fram hönnunarsamkeppni um hönnun heimilisins, sem hafði verið valinn staður í hlíðunum fyrir ofan Húsavík. Fyrstu verðlaun hlaut Arkís í samstarfi við Mannvit. Í umsögn dómnefndar segir meðal annars:

„Skipulag sambýliseininga styður við heimilisbrag með vistlegum einkarýmum fyrir hvern íbúa sem snúa flest að bænum og frábæru útsýni yfir Skjálfanda og Kinnarfjöll. Starfsaðstaða er mjög góð þar sem þjónusturými eru miðlæg og vegalengdir stuttar innan hverrar deildar. Heimiliseiningar eru allar jafnstórar og hönnun þeirra auðveldar mönnun og flæði milli þeirra, þ.m.t. yfirsýn yfir heimilið í heild og starfsfólk nýtist m.a. betur á nóttunni. Heimilið er bjart, auðvelt aðgengi er út undir bert loft frá setustofum til að njóta útsýnis og veðurs og tilhögun einkarýma gerir auðvelt fyrir íbúa að rata í herbergi sín.“

Hönnun heimilisins hófst fljótlega eftir lok samkeppninnar. Hönnun heimilisins lá fyrir árið 2021. Á haustdögum sama ár var jarðvinna boðin út og í kjölfarið var grafið fyrir byggingunni.

Í kjölfar þess komu upp spurningar um kostnað, skiptingu hans milli aðila byggingarinnar, en hjúkrunarheimili eru yfirleitt í sameign ríkis og sveitarfélags. Leiða til að lækka kostnað við bygginguna var leitað í samstarfi við hönnuða hennar.

Nú liggja fyrir endanlegar teikningar að hinu glæsilega hjúkrunarheimili og komið að því að fá tilboð frá byggingaraðilum. Verður spennandi að sjá hvaða fyrirtæki bjóðast til að byggja þessa mikilvægu byggingu. Tilboðsfrestur rennur út á hádegi 27. nóvember og verða tilboð opnuð rafrænt kl. 13. sama dag. Fyrirspurna- og athugasemdafrestur bjóðenda rennur út 16. nóvember.

Frekari upplýsingar um útboðið má nálgast hér og á útboðsvef Ríkiskaupa.

Heimild: FSRE.is