Home Fréttir Í fréttum Hús látin drabbast niður svo leyfi fáist til þess að rífa þau

Hús látin drabbast niður svo leyfi fáist til þess að rífa þau

177
0
Gröndalshús í Grjótaþorpinu í Reykjavík er dæmi um fallega uppgert hús. Það var upphaflega Vest­ur­gata 16a en stendur nú á horni Fischer­sunds og Mjóstræt­is. Benedikt Gröndal skáld og fræðimaður vann þar sín helstu verk. Í húsinu er nú rekið menningarhús í hans minningu. Mynd: Reykjavíkurborg

Fækka þarf hvötum sem stuðla að eyðingu minja, segir Birgir Þórarinsson alþingismaður og formaður starfshóps um stöðu minjaverndar. Hann segir dæmi um að hús séu látin drabbast niður til þess að leyfi fáist til að rífa þau.

<>

Í janúar síðastliðnum setti Guðlaugur Þór Þórðarson saman starfshóp sem fékk það hlutverk að greina stöðu og helstu áskoranir í minjavernd, hindranir, tækifæri og tillögur til úrbóta.

Auðveldara að eyða minjum en að vernda þær
Ein þeirra áskorana sem nefndin setti fram í skýrslunni er sú að í núverandi kerfi eru of margir hvatar sem stuðla að eyðingu minja en of fáir hvatar til að vernda og viðhalda þeim. Þetta á við um alla minjaflokka en í skýrslunni kemur fram að hús verði verðminni í opinberum skrám eftir því sem þau eldast.

Minjagildi þeirra og framlag til borgarumhverfis, staðarvitundar almennings og aðdráttarafls í ferðaþjónustu verði ekki metið til fjár.

Heimild er í minjalögum um að beita dagsektum á fasteignaeigendur sem vanrækja viðhald á friðlýstum húsum en því ákvæði hefur aldrei verið beitt.

Tækifæri fólgin í endurnýtingu byggingarefnis
Í skýrslunni er einnig tekið fram að mikil tækifæri felist í að endurnýta byggingarefni, bæði hvað varðar minjavernd og umhverfisvernd og mörg dæmi eru til um vel heppnaða umbreytingu húsa. Hins vegar megi segja að of fáar hindranir séu í veginum kjósi eigandi að láta rífa eldra hús.

Of algengt sé að húsum sé illa við haldið, þau grotni niður án þess að að neitt sé gert og loks fái eigandi úttekt þess efnis að húsið sé ónýtt og niðurrif heimilað á þeim grundvelli.

Sérstök áhersla lögð á 8 lykiltillögur
49 tillögur má finna í skýrslunni en átta tillögur voru valdar af starfshópnum sem hann vildi leggja sérstaka áherslu á.

Lykiltillögur sem snúa að öflun gagna, nýtingu þeirra og miðlun á þekkingu:

Aukinn kraftur settur í öflun og miðlun þekkingar, öllum til hagsbóta.

  • Fjármagna þarf grunnrannsóknir á sviði menningarminja, líkt og í tilviki náttúru, þar með talið skráningu húsa og fornleifa.
  • Tryggja þarf að minjavernd hafi sterka rödd og verði ekki víkjandi eða hornreka í stórri stofnun.
  • Efla þarf allar rannsóknir á sviði menningarminja og menningararf, þ.m.t handverksþekkingu.
  • Innleiða þarf Evrópska landslagssamninginn þar sem komið er inn á samhengi sjónrænna gæða, náttúrugæða og menningarlandslags.

Lykiltillögur sem snúa að þörfinni á að blása til sóknar með því að auka áhuga almenning á minjum og nýta til þess ýmsar leiðir og margvíslega hvata:

Blásið til sóknar í að auka áhuga fólks á minjum og komið á hvötum til þess að vernda þær.

  • Koma á grænum hvötum í tengslum við loftlagsmál og hringrásarhagkerfið, í átt að breyttri nýtingu húsa í stað niðurrifsog nýta byggingarefni og burðarvirki eldri húsa
  • Vernda þarf merkar nýminjar í lögum. Ná þarf til heima fólks og vekja áhuga á nýminjum. Nýminjar verði hluti af kortlagningu menningarlandslags.
  • Gera þarf aðgerðaráætlun um hvernig vekja megi áhuga almennings á minjum, auka þátttöku hans í minjavernd og veita honum ríkari aðkomu.
  • Greina þarf hvaða möguleikar eru til þess að styrkja fjárhagslegar stoðir minjaverndar, s.s. í gegnum sjóði, skattalega hvata og/eða ívilnanir.

Heimild: Ruv.is