Home Fréttir Í fréttum Boðað til vígsluhátíðar brúar yfir Þorskafjörð

Boðað til vígsluhátíðar brúar yfir Þorskafjörð

111
0
Nýja brúin yfir Þorskafjörð er 260 metra löng en vegtengingar sem fylgja brúnni eru samtals 2,7 kílómetrar. EGILL AÐALSTEINSSON

Vegagerðin hefur boðað til vígsluathafnar í Þorskafirði í Reykhólasveit klukkan 14 á morgun, miðvikudag 25. október. Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, Bergþóra Þorkelsdóttir vegamálastjóri og Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps, munu þá formlega opna nýju Þorskafjarðarbrúna með því að klippa á borða.

<>

Að ávörpum loknum mun Jóhanna Ösp Einarsdóttir, varaoddviti Reykhólahrepps, formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga og íbúi í Gufudal fara ríðandi yfir brúna með fjölskyldu sinni „..en líklega eru fáir fegnari framkvæmdinni við Vestfjarðveg um Gufudalssveit en barnafólk á svæðinu sem sér núna fram á að skólabíllinn geti ekið láglendisvegi í stað víðsjárverðra fjallvega,“ segir í fréttatilkynningu Vegagerðarinnar.

Vegagerðin segir að með þverun Þorskafjarðar styttist Vestfjarðavegur um tíu kílómetra. Framkvæmdin sé átta mánuðum á undan áætlun. Aðalverktaki var lægstbjóðandinn Suðurverk, sem tók að sér verkið fyrir 2.236 milljónir króna með verksamningi vorið 2021. Framkvæmdir hófust þá um haustið.

Samhliða vinnur Borgarverk að því að ljúka gerð vegarins um Teigsskóg og er vonast til að hann opnist í næsta mánuði, ásamt vegi um Djúpafjörð. Þar með færist Vestfjarðvegur af 336 metra háum Hjallahálsi.

Framundan er að þvera Djúpafjörð og Gufufjörð, en tilboð í vegfyllingar voru opnuð fyrir tveimur vikum. Þegar þverun fjarðanna lýkur styttist Vestfjarðavegur um Gufudalssveit um 22 kílómetra. Vegagerðin áætlar að stytting aksturstíma verði um 30 mínútur.

Heimild: Visir.is