Home Fréttir Í fréttum Vilja tvö fjöl­býl­is­hús við Soga­veg

Vilja tvö fjöl­býl­is­hús við Soga­veg

293
0
Gert er ráð fyr­ir að byggja tvö fjöl­býl­is­hús á lóðunum á Soga­vegi 73-77. Gætu þar orðið allt að 49 íbúðir. Mynd/​Reykja­vík

Í vik­unni var ákveðið á fundi um­hverf­is- og skipu­lags­ráðs Reykja­vík­ur að að kynna fyr­ir hags­munaaðilum hug­mynd­ir THG Arki­tekta um að rífa tvö hús við Soga­veg 73-75 og byggja á lóðinni og nær­liggj­andi lóð tvö fjöl­býl­is­hús með allt að 49 íbúðum á þrem­ur hæðum. Verði að til­lög­un­um verður eitt af stærri og dýr­ari ein­býl­is­hús­um borg­ar­inn­ar rifið, en Soga­veg­ur 75 var árið 2014 aug­lýst­ur fyr­ir 170 millj­ón­ir.

<>

Sam­kvæmt hug­mynd­um arki­tekta­stof­unn­ar sem lagðar voru fyr­ir um­hverf­is- og skipu­lags­ráð er gert ráð fyr­ir að hús­næðið við Soga­veg 73 verði rifið, en það er 48 fer­metr­ar og var byggt árið 1942. Þá verði einnig húsið við Soga­veg 75 rifið, en það var byggt árið 1926 og viðbygg­ing árið 1946. Er húsið sam­tals 581 fer­metri að stærð og er meðal ann­ars sér­stakt íþrótta­her­bergi þar.

Hug­mynd­in er að sam­eina lóðirn­ar og byggja þar fjöl­býl­is­hús með 17-20 íbúðum sem verði 55-120 fer­metr­ar að stærð hver. Fram kem­ur að í heild geti fjöldi íbúða mest orðið 49 tals­ins.

Næsta lóð sem heit­ir Soga­veg­ur 77 er óbyggð, en þar er gert ráð fyr­ir að reisa annað fjöl­býl­is­hús með 25-28 íbúðum sem verði 55-130 fer­metr­ar að stærð. Gert er ráð fyr­ir að bæði hús­in verði þriggja hæða þar sem hver hæð er aðeins inn­dregn­ari en hæðin fyr­ir neðan.

Í grein­ar­gerð sem fylg­ir um­sókn­inni kem­ur fram að á lóðinni við Soga­veg 77 séu há greni­tré sem gert er ráð fyr­ir að varðveita. Und­ir báðum hús­un­um er svo gert ráð fyr­ir bíla­geymsl­um.

Lóðirn­ar tvær af­mark­ast af Soga­vegi og Miklu­braut, en til vest­urs er svo hús­næði Votta Jehóva og til aust­urs eru slaufugatna­mót Miklu­braut­ar og Rétt­ar­holts­veg­ar. Árið 2014 hafði Hjalla­stefn­an óskað eft­ir að fá að reka leik- og grunn­skóla í hús­un­um við Soga­veg 73-75, en því var hafnað af borg­inni.

Heimild: Mbl.is