Í vikunni var ákveðið á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur að að kynna fyrir hagsmunaaðilum hugmyndir THG Arkitekta um að rífa tvö hús við Sogaveg 73-75 og byggja á lóðinni og nærliggjandi lóð tvö fjölbýlishús með allt að 49 íbúðum á þremur hæðum. Verði að tillögunum verður eitt af stærri og dýrari einbýlishúsum borgarinnar rifið, en Sogavegur 75 var árið 2014 auglýstur fyrir 170 milljónir.
Samkvæmt hugmyndum arkitektastofunnar sem lagðar voru fyrir umhverfis- og skipulagsráð er gert ráð fyrir að húsnæðið við Sogaveg 73 verði rifið, en það er 48 fermetrar og var byggt árið 1942. Þá verði einnig húsið við Sogaveg 75 rifið, en það var byggt árið 1926 og viðbygging árið 1946. Er húsið samtals 581 fermetri að stærð og er meðal annars sérstakt íþróttaherbergi þar.
Hugmyndin er að sameina lóðirnar og byggja þar fjölbýlishús með 17-20 íbúðum sem verði 55-120 fermetrar að stærð hver. Fram kemur að í heild geti fjöldi íbúða mest orðið 49 talsins.
Næsta lóð sem heitir Sogavegur 77 er óbyggð, en þar er gert ráð fyrir að reisa annað fjölbýlishús með 25-28 íbúðum sem verði 55-130 fermetrar að stærð. Gert er ráð fyrir að bæði húsin verði þriggja hæða þar sem hver hæð er aðeins inndregnari en hæðin fyrir neðan.
Í greinargerð sem fylgir umsókninni kemur fram að á lóðinni við Sogaveg 77 séu há grenitré sem gert er ráð fyrir að varðveita. Undir báðum húsunum er svo gert ráð fyrir bílageymslum.
Lóðirnar tvær afmarkast af Sogavegi og Miklubraut, en til vesturs er svo húsnæði Votta Jehóva og til austurs eru slaufugatnamót Miklubrautar og Réttarholtsvegar. Árið 2014 hafði Hjallastefnan óskað eftir að fá að reka leik- og grunnskóla í húsunum við Sogaveg 73-75, en því var hafnað af borginni.
Heimild: Mbl.is