Í Garðabæ eru nú um 670 íbúðir ýmist í uppbyggingu eða er áformað að hefja uppbyggingu við á þessu ári.
Langflestar íbúðirnar eru í Urriðaholti. Þar eru núna 300 íbúðir í byggingu og byrjað verður á eitt hundrað til viðbótar á þessu ári. Í miðbæ Garðabæjar eru þegar í byggingu eða verða hafnar framkvæmdir við á árinu 52 íbúðir og 82 á Sjálandi. Við Lyngás er fyrirhugað að hefja byggingu 56 íbúða á þessu ári og sama á við um 31 íbúð í Unnargrund.
Inni í heildartölunni eru líka 12 íbúðir í Garðahrauni, 20 á Álftanesi og 15 í Akrahverfinu.
Þess má geta að 210 íbúðir hafa nú þegar risið í Urriðaholti og er fólk nú þegar flutt inn í hluta þeirra. Verið er að ljúka innréttingavinnu við einhverjar og aðrar eru í sölu. Einnig lauk framkvæmdum við 40 nýjar íbúðir í miðbænum á síðasta ári.
Í þessu samhengi má einnig horfa til þess að íbúum Garðabæjar hefur fjölgað nokkuð á undanförnum árum. Við sameiningu Garðabæjar og Álftaness 1. janúar 2013 voru íbúar nýs sveitarfélags 13.872. Í dag eru íbúar Garðabæjar 14.790 sem er um 6,6% fjölgun á þremur árum.
Heimild: Garðabær