„Verja skal að minnsta kosti 1% af heildarbyggingarkostnaði opinberrar nýbyggingar til listaverka í henni og umhverfi hennar.“
Svo er mælt fyrir um í 14. grein myndlistarlaga sem sett voru á Alþingi árið 2012, en Jón Gunnarsson alþingismaður vakti athygli á lagagreininni í ræðu á Alþingi í vikunni. Benti hann á að í tilviki nýs Landspítala þýddi þetta að verja þyrfti rúmlega 2 milljörðum króna í listaverk í byggingunni.
Í lagagreininni kemur fram að með listaverkum sé átt við „hvers konar fasta og lausa listmuni, svo sem veggskreytingar innan húss og utan, höggmyndir, málverk, myndvefnað og aðra listræna fegrun“.
Fjármálaráðuneytið upplýsti sl. sumar að heildarkostnaður við byggingu nýs Landspítala yrði ríflega 210 milljarðar króna og var þá miðað við kostnaðartölur 2022 og á verðlagi í október það ár.
Ætla má að endanleg tala verði hærri, t.a.m. í ljósi verðbólgu. Það þýðir að fjárfesta þarf í listaverkum fyrir spítalann fyrir a.m.k. 2,1 milljarð, þ.e. ef hugtakið „heildarbyggingarkostnaður“ innifelur jafnframt tæki og búnað.
Í tölum fjármálaráðuneytisins kemur fram að kostnaður vegna tækja verði rúmir 25 milljarðar króna sem myndi þá mögulega lækka fyrrgreinda upphæð til listaverkakaupa um 250 milljónir.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út laugardaginn 21. október.
Heimild: Mbl.is