
„Kröfur almennings hafa breyst. Þarna verður betri aðstaða og fólki gefst meiri tími til að flokka,“ segir Jón Viggó Gunnarsson framkvæmdastjóri Sorpu.
Ný móttökustöð Sorpu verður opnuð í lok árs 2024 við Lambhagaveg 14 gangi áætlanir Sorpu eftir. Stöðin verður skammt frá stórverslun Bauhaus og mun þjóna íbúum í stórum hverfum á borð við Grafarholt, Grafarvog og Úlfarsárdal.
Hún kemur í stað stöðvarinnar við Sævarhöfða sem verður lokað vegna uppbyggingar á því svæði.

Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum verður þessi nýja móttökustöð mun þægilegri í notkun en þær sem fólk á nú að venjast. Hún er byggð í hring og yfirbyggð að hluta. Þannig verður mun betra umferðarflæði um stöðina og skjól verður til að skila af sér úrgangi.
Ekki verður vanþörf á nú þegar ríkari kröfur eru gerðar til almennings um flokkun og endurvinnslu en verið hefur.
