Home Fréttir Í fréttum Tvöfalda íbúðafjöldann á Borg

Tvöfalda íbúðafjöldann á Borg

311
0
Bjarni Bærings, eigandi Titaya sem vinnur að íbúðauppbyggingu á Borg. Ljósmynd: Aðsend mynd

Verið er að byggja 40 íbúðir á Borg í Grímsnes- og Grafningshreppi sem áætlað er að verði fullbúnar á næsta ári.

<>

Útlit er fyrir að byggðakjarninn Borg í Grímsnes- og Grafningshreppi muni stækka verulega á næstu árum. Fasteignafélagið Titaya ehf. vinnur í samstarfi við byggingarfélagið Premium Properties ehf. að byggingu 40 íbúða á svæðinu, sem áætlað er að verði fullbúnar á næsta ári, og þar með tvöfalda íbúðafjöldann á Borg.

Bjarni Bærings, eigandi Titaya, segir að fasteignafélagið áformar að ráðast í frekari íbúðauppbygginu á svæðinu árið 2025.

„Ég tel að þetta sé einn hraðast vaxandi íbúðakjarninn á öllu landinu og líklegt er að íbúafjöldinn muni margfaldast á næstu árum. Á svæðinu er öll helsta þjónusta til staðar – leikskóli, grunnskóli, íþróttamiðstöð, sundlaug og verslun – og sveitarfélagið er í mikilli sókn með skýra og þjónustumiðaða framtíðarsýn. Jafnframt er nóg af heitu vatni og landi fyrir ný íbúðahverfi.“

Umræddar íbúðir sem Titaya kemur að verða blanda af raðhúsum, parhúsum, og fjölbýli. Fyrsta raðhúsalengjan, sem inniheldur fimm íbúðir fullbúnar að utan og fokheldar að innan, fór í sölu í byrjun mánaðarins. Bjarni segir að öll lengjan hafi verið seld á rúmri viku – til verktaka sem sérhæfir sig í að klára íbúðir að innan – og íbúðirnar fari mjög fljótlega í almenna sölu.

Þá mun Titaya setja aðra raðhúsalengju í sölumeðferð á næstu dögum og er þegar byrjað að sýna henni áhuga að sögn Bjarna. Fasteignasalan Domusnova mun sjá um söluna.

Titaya, sem á nokkra tugi fasteigna, hefur að undanförnu fært sig úr því að kaupa stakar fasteignir og setja í langtímaleigu yfir í að koma að stærri byggingarverkefnum.

Bjarni segist hafa fyrst fengið veður af byggingartækifærum á Borg í gegnum samstarfsaðila sinn Premium Properties, sem hafði tekið þátt í lóðaúthlutun í sveitarfélaginu fyrir fáeinum árum. Bjarna leist afar vel á verkefnið og úr varð að félögin tvö ákváðu að vinna saman að uppbyggingunni með fjármögnun frá lánafyrirtækinu IMIROX, systurfélagi Titaya.

Bjóða allt að 100% fjármögnun
Lánafyrirtækið IMIROX, sem er einnig í eigu Bjarna, býður verktökum sem kaupa íbúðir af systurfyrirtækinu Titaya á svæðinu lán með allt að 100% veðhlutfalli auk heildarfjármögnunar í allan lokafrágang fasteignarinnar. Verktakinn sem keypti fyrstu raðhúslengjuna af Titaya nýtti sér báða þessa lánsmöguleika.

IMIROX býður fasteignalán til lögaðila í krónum og evrum. Bjarni segir að í þeim tilfellum þar sem fasteignaverkefnin tengjast starfsemi Titaya hafi IMIROX getað boðið upp á hagstæð kjör í samanburði við bankana og með háu veðhlutfalli. Þannig hafi lánafyrirtækið á síðustu tólf mánuðum veitt um 30 viðbótarlán á 0,9% óverðtryggðum vöxtum til aðila sem keyptu fasteignir af Titaya.

„Þegar við viljum selja eignir á köldum fasteignamarkaði eins og í dag þá hjálpar okkur að geta boðið hagstæða lánsmöguleika og vaxtarkjör. Við höfum þannig getað haldið hreyfingu á hlutum og látið verkefni ganga upp.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun um Borg í Grímsnes- og Grafningshreppi í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun.

Heimild: Vb.is