Greiningardeild Íslandsbanka spáir því að verðbólga muni haldast óbreytt í 8% í október og svo haldast á svipuðum slóðum næstu mánuði, en taka að hjaðna nokkuð hratt í byrjun næsta árs. Greiningardeildin telur þó nýlegar tölur um þróun íbúðaverðs vera áhyggjuefni.
Þetta er nokkuð annar taktur en er í verðbólguspá hagfræðideildar Landsbankans sem spáði því í síðustu viku að verðbólga myndi lækka í 7,6% í október og haldast á þeim slóðum út árið. Þar var því þó einnig spáð að mikil lækkun myndi eiga sér stað strax eftir áramót.
Spáir bankinn því að vísitala neysluverðs hækki um 0,7% í október frá fyrri mánuði, en það veldur því að ársverðbólgan helst óbreytt.
Hækkun íbúðaverðs helsta ástæðan
Í spá Íslandsbanka segir að hækkun íbúðaverðs sé helsta ástæða þess að ársverðbólgan muni ekki hjaðna í október. Þó er einnig tekið fram hækkun eldsneytis. Er vísað til þess að vísitala íbúðaverðs, sem HMS reiknar fyrir höfuðborgarsvæðið, hafi hækkað síðustu tvo mánuði og um 1,4% í september. Það sé mesta hækkun í einum mánuði frá því í fyrrasumar að marsmánuði undanskildum.
„Í þessum verðsveiflum sem hafa einkennt markaðinn á síðustu misserum hafa sérbýli sérstaklega verið að sveiflast til í verði sem má rekja til mjög fárra kaupsamninga á tímabilinu. Nú hafa hins vegar fjölbýlin hækkað tvo mánuði í röð um samtals 2,3% sem gæti stafað af rýmri heimildum hlutdeildarlána sem tóku gildi í sumar,“ segir í spánni.
Að húsnæðisliðinum undanskildum hækkar liðurinn flugfargjöld mest í októberspá Íslandsbanka, eða um 5,2%. Þá hækkar í spánni matar- og drykkjarverð um 0,3%.
Síðustu tvær mælingar valda þó nokkrum áhyggjum
„Hægari hækkun íbúðaverðs en raunin var undanfarin misseri er grunnforsenda þess að verðbólga hjaðni hratt á næsta ári samkvæmt spá okkar. Ef íbúðaverð fer aftur á fleygiferð mun verðbólgan ef til vill verða ansi þrálát.
Við gerum þó ráð fyrir að háir vextir, aukið aðhald frá lánþegaskilyrðum Seðlabankans og fjármálafyrirtækja og vaxandi framboð á markaði verði til þess að íbúðamarkaðurinn verði rólegur á næstu misserum. Mælingar á íbúðaverði síðustu tveggja mánaða valda okkur þó nokkrum áhyggjum,“ segir í spá bankans.
Heimild: Mbl.is