Home Fréttir Í fréttum Fasteignasali segir mörg dæmi um að enginn mæti á opin hús

Fasteignasali segir mörg dæmi um að enginn mæti á opin hús

171
0
Mynd: Dv.is

Páll Pálsson fasteignasali ræddi um stöðuna á fasteignamarkaðnum hér á landi um þessar mundir í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni fyrr í dag. Hann segir að þótt að salan á fasteignum sé minni þá sé markaðurinn þroskaðri en hann var fyrir 2-3 árum.

<>

Páll tekur undir með þáttastjórnendum um að umsvif á markaðnum hafi minnkað en hann sé þó ekki alveg í frosti:

„Þetta eru svona um það bil 600 eignir sem hafa selst á mánuði á þessu ári á móti rúmlega 800 eignum í fyrra. Það er kannski aðeins meira að gera en fólk heldur.“

Það séu þó mörg dæmi um að illa gangi að selja fasteignir og að þótt opin hús séu haldin í eignum sem eru til sölu komi oft fyrir að enginn láti sjái sig:

„Maður heyrir það oft að það eru opin hús og það kemur enginn. Svo er reynt annað opið hús og það kemur enginn.“

Fyrir þessu sé fyrst og fremst ein ástæða:

„Það er það að markaðurinn á þessum síðustu 12, 13, 14 mánuðum hefur hækkað um í kringum tvö prósent. Það er að segja 60 milljón króna íbúð kostar rúmlega 61 milljón. En ásettu verðin, auglýstu verðin á netinu hafa hækkað um að meðaltali yfir átta prósent.

Þannig að það eru oft væntingar seljenda um verð sem gerir það að verkum að markaðurinn hafnar verðinu. Ég er ekki að segja að þetta sé alltaf svona en þetta er langalgengasta ástæðan fyrir því að það er í raun og veru bilið á milli þess sem fólk vill fá fyrir eignina sína og það raunverulega getur fengið fyrir eignina.“

Páll segir það vissulega fasteignasala að benda seljendum á, út frá gögnum, ef það er bil milli væntinga þeirra um söluverð og þess verðs sem hægt er að fá á fasteignamarkaðnum eins og hann stendur hverju sinni. Á endanum sé það þó alltaf seljandi sem taki endanlega ákvörðun um ásett verð.

Seljendur sem verðleggi eign sína of hátt og haldi svo opin hús sem enginn mæti á kenni rólegum markaði alltaf um en staðreyndin sé að fjöldi þeirra sem séu að skoða vefsíður þar sem fasteignir eru auglýstar til sölu sé mikill.

Segir framboð af eignum vera gott

Páll segir að seljendur vænti þess almennt að markaðurinn muni taka við sér. Hann vísar í spár Landsbankans um að vextir og verðbólga muni fara niður á við á komandi ári og að fasteignamarkaðurinn fari á aukið flug í kjölfarið. Páll segir líklegt að sú þróun muni ýta verði á fasteignum upp á við. Að hans mati séu aðstæður á markaðnum þó betri í dag en fyrir 2-3 árum:

„Núna er mjög gott framboð af eignum. Það eru rúmlega 3.000 eignir á markaðnum á landinu öllu, 2.000 á höfuðborgarsvæðinu. Þrjátíu prósent af því eru nýbyggingar. Þannig að það er svo sem ágætis jafnvægi. Eins og ég segi oft. Ég var bara að segja við einhvern í síðustu viku.

Ef ég þyrfti að velja á milli markaðarins eins og hann er núna, þó að sölutíminn sé lengri og svo framvegis, eða eins og markaðurinn var árin 2020 og 2021 þar sem að voru örfáar eignir á markaðnum, það voru 30-40 manns á opnu húsi og þær seldust langt yfir auglýstu verði.

Áttatíu og sjö prósent af eignum í dag seljast á eða undir auglýstu verði. Það eru ekki nema þrettán prósent af eignum sem seljast yfir auglýstu verði í dag. Af tvennu þá er markaðurinn betri ef ég get sagt það, innan gæsalappa, í dag heldur en hann var þá. Þetta er miklu þroskaðri markaður í dag.“

Markaðurinn eins og hann er í dag sé ekki betri fyrir fasteignasala sem selji færri eignir en hann sé hins vegar betri fyrir bæði kaupendur og seljendur:

„Ef maður horfir hlutlaust úr fjarlægð á markaðinn þá er í raun og veru betra, það er þroskaðra, að vera á markaði þar sem þú hefur val um að skoða kannski 5-10 eignir. Þú getur gert tilboð, færð kannski gagntilboð, menn kannski fara að finna einhverja rétta leið á verð og svo framvegis heldur en þessi geðveiki sem var þarna árið 2021, sem dæmi. Þannig að það má færa rök fyrir því að þetta er í raun og veru betra. Það er svona meira jafnvægi í þessu núna en var þá.“

Viðtalið má heyra í heild sinni hér.

Heimild: Dv.is