Home Fréttir Í fréttum Ný flugbraut kallaði á stærstu sprengingu í sögu Grænlands

Ný flugbraut kallaði á stærstu sprengingu í sögu Grænlands

123
0
Stærsta sprenging í sögu Grænlands. Verktakinn notaði 230 tonn af sprengiefni til að sprengja 321 þúsund rúmmetra af klöpp. Sjá má hvernig grjótinu rignir út á flóann vinstra megin og upp í hlíðarnar hægra megin. KALAALLIT AIRPORTS

Gerð nýs aðalflugvallar fyrir Suður-Grænland virðist loksins komin á beinu brautina eftir langvarandi óvissu. Við flugbrautargerðina var hleypt af stærstu sprengingu í sögu Grænlands.

<>

Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2 en Qaqortoq er stærsti bær Suður-Grænlands með um þrjúþúsund íbúa. Til að komast á næsta flugvöll hafa bæjarbúar þurft að leggja á sig tveggja tíma siglingu eða taka þyrlu til Narsarsuaq-flugvallar, sem Bandaríkjaher gerði á stríðsárunum en þangað hafa Icelandair og forverar þess sinnt flugi í meira en hálfa öld.

Framkvæmdir við völlinn í Nuuk hófust árið 2019, í Ilulissat árið 2020 og í Qaqortoq árið 2022.
GRAFÍK/HAFSTEINN ÞÓRÐARSON.

Flugvöllur við Qaqortoq átti upphaflega að fylgjast að með gerð vallanna í Nuuk og Ilulissat, sem eru langt komnir. Landssjóði Grænlendinga reyndist hins vegar illmögulegt að fjármagna gerð þriggja alþjóðaflugvalla samtímis og þurfti Qaqortoq-völlur að bíða.

Flugvallarsvæðið er um sex kílómetra utan við bæinn Qaqortoq.
KALAALLIT AIRPORTS

Framkvæmdir við gerð 1.500 metra langrar flugbrautar hófust svo loks fyrir rúmu ári en þær annast kanadíski verktakinn Pennecon. Þeim fylgdi meðal annars stærsta sprenging í sögu Grænlands í júlí síðastliðnum og mátti á myndbandi sjá hvernig grjótinu rigndi langt út á flóann.

Pennecon notaði þá yfir 230 tonn af sprengiefni til að sprengja 321 þúsund rúmmetra af klöpp. Undirbúningur sprengingarinnar tók sex vikur og voru 18 kílómetrar boraðir af holum til að koma sprengiefninu fyrir.

Þrjár byggingar rísa; flugstöð, þjónustubygging og flugturn á hæðinni ofarlega til vinstri
KALAALLIT AIRPORTS

Smíði flugstöðvar og annarra flugvallarbygginga hefur hins vegar verið í óvissu þar sem tilboðin sem bárust voru hátt yfir þeim fjárhagsramma sem grænlenska landsstjórnin hafði markað. Eftir langt ferli við að ná niður kostnaði tilkynnti flugvallafélag Grænlendinga, Kalaallit, í síðustu viku að það hefði samið við grænlenska verktakann KJ Greenland um smíði bygginganna.

Flugstöðin verður talsvert minni en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir.
KALAALLIT AIRPORTS

Flugstöðin verður þó mun hógværari en áður var áformað. Búið er að minnka hana úr 4.300 fermetrum niður í 2.500 fermetra. Einnig verða reistar 2.100 fermetra þjónustubygging og 160 fermetra flugturn. Fallið var frá hugmyndum um að stytta flugbrautina niður í 1.200 metra en mögulegt er að lengja hana síðar í 1.800 metra.

Smíði bygginganna á að hefjast næsta vor og er áformað að flugvöllurinn verði tekinn í notkun í ársbyrjun 2026. Samtímis er gert ráð fyrir að flugvellinum í Narsarsuaq verði lokað.

Heimild: Visir.is