Færri íbúðir eru byggðar en áður og tilbúnar íbúðir seljast ekki. Framkvæmdastjóri hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun segir framleiðslu á íbúðarhúsnæði þurfa að vera í meira jafnvægi.
Færri íbúðir eru í byggingu nú en áður og tilbúnar íbúðir seljast ekki. Þetta eru niðurstöður nýrrar greiningar á íbúðaþörf og talningar á íbúðum sem verið er að byggja. Sjötíu prósenta samdráttur er á milli ára í byggingu nýrra íbúða samanborið við sama tímabil í fyrra.
Elmar Erlendsson, framkvæmdastjóri lánasviðs HMS, segir byggingaraðila ekki treysta sér til að hefja byggingu nýs húsnæðis þar sem margir sitji uppi með tómar, fullbúnar íbúðir sem seljist ekki.
„Þar af leiðandi halda þeir að sér höndum eins og staðan er núna. Og bíða og sjá hvernig málin munu þróast, lækkandi vaxtastigi, þannig að kaupendur geti fjárfest í íbúðum. Þá treysta þeir sér til að fara og halda áfram að byggja.“
Rúmlega 8600 íbúðir eru í ákveðinni framvindu, eins og það er kallað. Framkvæmdir standa yfir við 7000 þeirra. Elmar segir að meira jafnvægi þurfi að vera á byggingu á íbúðarhúsnæði.
„Til þess að ná að byggja upp í íbúðarþörfina þyrftum við að vera með í kringum 8 til 9 þúsund íbúðir í byggingu. En þær þurfa að vera í raunverulegri framleiðslu til þess að við náum að fá það magn íbúða, fullbúna, á hverju ári til þess að mæta þessari þörf sem við erum að meta.“
Það er ekki eins og staðan er í dag?
„Nei það er alls ekki útlit fyrir það og frekar samdráttur ef eitthvað er.“
Heimild: Ruv.is