Home Fréttir Í fréttum Byggingarfélag Gylfa og Gunnars fær ekki að áfrýja fyrir Hæstarétti og þarf...

Byggingarfélag Gylfa og Gunnars fær ekki að áfrýja fyrir Hæstarétti og þarf að greiða tugi milljóna í bætur

192
0
Frá Lundi við Nýbýlaveg í Kópavogi. Mynd: Já.is

Byggingarfélag Gylfa og Gunnars hf. tapaði dómsmáli fyrir Lundi 2-6, húsfélagi. Málið varðaði ágreining um frágang á þakplötu yfir bílageymslu, sem jafnframt myndar bílastæði fyrir framan fjölbýlishúsin við Lund 2-6 í Kópavogi.

<>

Húsfélagið taldi að frágangur þakplötunnar hefði ekki verið í samræmi við hönnunargögn á byggingartíma fasteignarinnar. Töldu eigendurnir að frávik við frágang þakplötunnar hefðu leitt itl þess að hún sé ekki fyllilega vatnsheld og þeir hafi þar með orðið fyrir tjóni vegna ófullnægjandi frágangs á yfirborði plötunnar.

Húsfélagið vann málið fyrir héraðsdómi sem dæmdi byggingarfélagið til að greiða tæplega 36 milljónir króna í skaðabætur. Gylfi og Gunnar áfrýjuðu til Landsréttar sem staðfesti dóm héraðsdóms.

Byggingarfélagið sótti þá um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar og telur að málið hafi fordæmisgildi um hvenær byggja skuli á bótareglum innan eða utan samninga. Dómur Landsréttar byggi ranglega á réttarreglum skaðabótaréttar utan samninga.

Hæstiréttur féllst ekki á þetta og segir í niðurstöðu:

„Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess geti haft verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.“

Ákvörðun Hæstaréttar má lesa hér.

Heimild: Dv.is