Home Fréttir Í fréttum Reiði út af nýju heilsuhverfi í Garðabæ – „Garðabær stelur Kópavoginum frá...

Reiði út af nýju heilsuhverfi í Garðabæ – „Garðabær stelur Kópavoginum frá Kópavogsbúum“

160
0
Á torgi hins nýja hverfis er meðal annars gert ráð fyrir veitingastöðum og samgöngumiðstöð. Mynd/Garðabær

Íbúar í bæði Kópavogi og Garðabæ eru ósáttir við fyrirhugaða uppbyggingu hins svokallaða Arnarlands, eða Arnarnesháls í Garðabæ. Þar munu rísa níu hæða stórhýsi sem meðal annars taka sýnina yfir Kópavoginn af Kópavogsbúum í Smárahverfi. Einnig mun umferðarþungi aukast til muna í Smárahverfi og Akrahverfi í Garðabæ.

<>

„Sjórinn fyrir neðan heitir Kópavogur sem er sálin í okkur Kópavogsbúum. Í dag geta flestir íbúar Smárahverfis séð út á sjóinn. Nú má segja: Garðabær stelur Kópavoginum frá Kópavogsbúum,“ segir Gunnar Þór Finnbjörnsson, íbúi í Smárahverfi í Kópavogi.

Hið nýja hverfi er rauðmerkt á kortinu. Mynd/Garðabær

Hann er einn af þeim íbúum sem eru ósáttir fyrir skipulag hverfisins, sem mun stinga töluvert í stúf og verða mun háreistara en nærliggjandi hverfi. Það er Smárahverfið, Akrahverfið og Arnarneshverfið.

500 íbúðir á litlum reit
Um er að ræða spildu sem afmarkast af Hafnarfjarðarvegi, Arnarnesvegi og Fífuhvammsvegi. Miðað við legu landsins mætti ætla að spildan, sem er lítið annað en lúpínumelur í dag, tilheyrði Kópavogi en það tilheyrir í raun Garðabæ.

Svæðið er óbyggður lúpínumelur í dag. Mynd/Garðabær

Svæðið er ekki stórt, um 10 hektarar, en þar á samt að reisa 500 íbúðir. Tvo níu hæða turna og nokkra fimm og sex hæða, byggða mjög þétt.

Þá er einnig gert ráð fyrir verslun á reitnum og annarri þjónustu en hverfið, sem hefur fengið nafnið Arnarland, hefur verið kynnt sem heilsuhverfi fyrir 50 ára og eldri.

Ekkert rætt við Kópavogsbúa
Haldnir hafa verið tveir íbúafundir í Garðabæ til að kynna fyrirætlanirnar en enginn í Kópavogi. Gunnar Þór og fleiri íbúar Smárahverfis fengu þó veður af þessum fundum og mættu.

„Það kom fram í gögnum þessa funda að skipulagið væri unnið í samráði við ýmsa aðila, þar á meðal yfirvöld í Kópavogi. En það var ekkert rætt við íbúana í Kópavoginum,“ segir hann. Hið nýja hverfi muni þó hafa mikil áhrif á íbúa Smárahverfis, bæði hvað varðar útsýni og umferð.

Síðustu forvöð til að skila inn athugasemdum er á mánudaginn, 25. september. Gunnar Þór hefur gert það og fleiri nágrannar hans. Hann gerir sér þó ekki grein fyrir hversu margir í hverfinu hafi sent því að margir séu að „kurra hver í sínu horni“ eins og Íslendingum sé tamt. Hann vonast þó eftir að sem flestir geri það.

Gunnar Þór segist alltaf hafa átt von á því að einhver byggð myndi rísa á þessu svæði, en þá lágreistari. Kannski þriggja hæða byggingar hið mesta. „Þetta er ekki neinu samræmi við það sem er þarna fyrir,“ segir hann.

Gríðarleg umferðaraukning
Ólöf H. Pálsdóttir, íbúi í Akrahverfi í Garðabæ, er meðal fjölmargra íbúa þar sem eru ósáttir við umferðina og tengingarnar við hið nýja hverfi. Einkum er það vegna mikils aukins umferðarþunga, sem og fyrirætlana um að tengja Borgarlínuna í gegnum Arnarland og Akrahverfi.

Gerður verður vegur undir Arnarnesveginn sem mun tengjast hringtorginu við Akrahverfið til að tengja við Arnarlandið. Áætluð dagleg umferð verður á bilinu 8 til rúmlega 10 þúsund bílar á dag og gert er ráð fyrir að hátt í 2 þúsund bílar fari um Akrahverfi.

Ólöf spyr hvers vegna nauðsynlegt þyki að tengja saman hverfin tvö með þessum hætti. „Þessi byggð er kynnt sem íbúðir fyrir 50 ára og eldri en í Akrahverfinu er aðeins leikskóli og ein verslun, en það er einnig gert ráð fyrir verslun í nýju hverfi,“ segir hún.

Borgarlína í íbúðarhverfi
Nefnir hún að umferðarþunginn sé nú þegar mjög mikill. „Hringtorgið upp á Arnarnesvegi er sprungið á ákveðnum tímum. Hvernig á það að geta tekið við þessari auknu umferð?“ spyr hún.

Þá sé það ekki gott að verið sé að leggja Borgarlínuna um íbúðahverfi. Borgarlínan gangi á 7 til 10 mínútna fresti, mun oftar en venjulegur strætisvagn. Þetta sé meiri truflun fyrir íbúa og skapi meiri hættu fyrir börnin.

Gunnar Þór segir að Garðabær byggi en Kópavogur þurfi að taka við umferðinni.

Aukin umferð verður enn meiri um Smárahverfið því áætlað er að rúmlega 80 prósent umferðarinnar frá Arnarlandi, um 8 þúsund bílar, muni keyra um Fífuhvammsveginn.

„Mest öll umferðin úr þessu hverfi fer inn í Kópavoginn,“ segir Gunnar Þór. „Garðabær byggir en Kópavogur tekur við umferðinni.“

Heimild: DV.is