Landsvirkjun á von á því að endurútgefið virkjanaleyfi fáist vegna Hvammsvirkjunar fyrir sumarið. Virkjanaleyfið var fellt úr gildi af úrskurðanefnd umhverfis- og auðlindamála í júní.
Leyfi Landsvirkjunar fyrir Hvammsvirkjun í Þjórsá er að nýju á borði Umhverfisstofnunar. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi virkjunarleyfið úr gildi í júní.
Hvammsvirkjun er ætlað að nýta fall Þjórsár neðan Búrfellsvirkjunar í Þjórsárdal og framleiða með því 95 megavött af raforku. Virkjunin yrði á láglendi á mörkum Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Rangárþings ytra.
Virkjunin hefur verið í pípunum í fjölda ára og stóð til að hefja undirbúningsframkvæmdir síðasta sumar, þegar leyfi var í höfn frá Orkustofnun.
Allt á áætlun þangað til virkjanaleyfið var ógilt
Ekkert virtist þá standa í vegi fyrir framkvæmdinni, sem hefur verið umdeild, þangað til að úrskurðanefnd umhverfis- og auðlindamála felldi virkjanaleyfið úr gildi. Það var í fyrsta sinn sem nefndin ógildir virkjanaleyfi Orkustofnunar. Nefndinni bárust níu kærur, meðal annars frá veiðifélögum, íbúum nærliggjandi sveita og náttúruverndarsamtökum sem kölluðu ógildinguna einn stærsta sigur náttúruverndar í langan tíma.
Úrskurðarnefndin taldi ekki hafa verið sýnt fram á að Þjórsá biði ekki skaða af framkvæmdunum. Forsvarsmenn Landsvirkjunar hafa tekið saman frekari gögn og sent til Umhverfisstofnunar ásamt umsókn um breytingu á vatnshloti.
Í svari Landsvirkjunar við fyrirspurn fréttastofu segjast þau eiga von á að Orkustofnun gefi út virkjanaleyfið að nýju að lokinni þeirri yfirferð. Ómögulegt sé að segja til um hve langan tíma hún taki, en að undirbúningsframkvæmdir gætu hafist í sumar.
Skeiða- og Gnúpverjahreppur hafði fallist á framkvæmdina áður en leyfið var ógilt. Rangárþing ytra hyggst bíða með leyfisveitingu þangað til virkjanaleyfið hefur verið tryggt.
Heimild: Ruv.is