Home Fréttir Í fréttum Greiða 20 milljarða til að losna undan 18 ára leigu­samningi

Greiða 20 milljarða til að losna undan 18 ára leigu­samningi

274
0
Mark Zuckerberg, forstjóri Meta, hefur ráðist í umfangasmiklar hagræðingaraðgerðir á síðustu misserum. Ljósmynd: EPA / Aðsend mynd

Meta greiddi um 20 milljarða króna til að losna undan leigusamningi í miðborg London sem átti að gilda til næstu átján ára.

<>

Meta, móðurfélag Facebook, hefur ákveðið að greiða 149 milljónir punda eða sem nemur yfir 20 milljörðum króna til að losna undan stórum leigusamningi vegna skrifstofuhúsnæðis nálægt Regent‘s Park í London.

Fasteignaþróunarfélagið British Land, sem á bygginguna að 1 Triton Square, sendi frá sér afkomuviðvörun vegna ákvörðunar Meta. Fasteignafélagið færði niður spá um hagnað á næstu sex mánuðum en hélt þó afkomuspánni fyrir fjárhagsárið 2024 óbreyttri.

Leigusamningurinn átti að gilda til næstu átján ára en Meta greiddi sem samsvarar sjö árum af leigukostnaði til að losna undan skuldbindingunni, samkvæmt greinanda BNP Paribas Exane.

Í umfjöllun Financial Times segir að þetta sé enn eitt merkið um nálgun stórra tæknifyrirtækja að draga úr kostnaði með því að minnka yfirbyggingu og styðja fremur við fjarvinnu starfsmanna.

Greinandi Goodbody á fasteignamarkaði áætlar að Meta muni framleigja eða losa sig við samtals upp undir 90 þúsund fermetra af skrifstofuhúsnæði í Evrópu, þá einkum í London og Dublin.

Meta, sem leigði húsnæðið að 1 Triton Square árið 2021, endaði á að flytja aldrei inn í bygginguna. Í desember 2022 sagðist netrisinn að hann hygðist ekki nýta skrifstofurýmið og myndi fremur framleigja það.

„Þetta er sláandi fjárhæð. Ég man ekki eftir öðru eins dæmi á mínum 20 ára ferli þar sem leigutaki greiðir svona mikið fyrir að skila skrifstofurými sem þeir nota ekki einu sinni,“ hefur FT eftir greinanda hjá Feel Hunt.

Heimild: Vb.is