Home Fréttir Í fréttum Krefst þess að stjórnvöld bregðist skjótt við sjávarflóðum

Krefst þess að stjórnvöld bregðist skjótt við sjávarflóðum

104
0
Nýlegur sjóvarnagarður liggur meðfram Hólmsvelli í Leiru en víðar í sveitarfélaginu þarf að bregðast við ágangi sjávar. VF/Hilmar Bragi

Bæjarráð Suðurnesjabæjar krefst þess að stjórnvöld bregðist skjótt við og tryggi fjármagn til sjóvarna hið fyrsta. Yfirferð yfir stöðu sjóvarna í Suðurnesjabæ, þörf næstu ára og áætlaðar framkvæmdir við sjóvarnir í samgönguáætlun var til umfjöllunar á fundi bæjarráðs sem fékk Einar Friðrik Brynjarsson, deildarstjóra umhverfissviðs, á fundinn undir þessum lið en Einar hefur látið vinna módel fyrir sveitarfélagið sem sýnir alla strandlengju Suðurnesjabæjar og hvar hættan er mest.

<>

Bæjarráð bókaði eftirfarandi um málið:

„Í ljósi þess að búast má við sjávarflóðum mun tíðar en áður vegna veðurskilyrða og hækkandi sjávarstöðu er mikilvægt að stjórnvöld bregðist við þessari auknu náttúruvá með tilheyrandi hætti. Sjávarflóð og varnir vegna þeirra skipta æ meira máli í sjávarbyggðum eins og í Suðurnesjabæ þar sem landbrot og tjón hefur verið töluvert þegar sjór hefur gengið á land.

Nýlegt dæmi um þetta eru þau sjávarflóð sem gengu yfir stóran hluta Suðurnesjabæjar nú í byrjun september. Sjávarflóð eru ein tegund af náttúruvá sem við búum við hér á landi, mikilvægt er að bregðast við þessari vá á sama hátt og t.d. ofanflóðahættu þar sem góðar varnir skipta höfuðmáli til að lágmarka líkur á neikvæðum áhrifum á samfélagið.

Greiningar á sjóvörnum, flóðahættu og landrofi Suðurnesjabæjar gefa skýr merki um þörfina á bættum sjóvörnum í Suðurnesjabæ. Verkefni sem Suðurnesjabær telur forgangsverkefni á næstu árum, og skilað var inn við vinnslu samgönguáætlunar, skila sér ekki eða þá af takmörkuðu leyti inn í þá samgönguáætlun sem nú er aðgengileg í samráðsgáttinni.

Bæjarráð Suðurnesjabæjar krefst þess að stjórnvöld bregðist skjótt við og tryggi viðunandi fjármögnun til sjóvarna hið fyrsta.“

Heimild: Vf.is