Heimamenn í Grímsey lögðust á eitt á dögunum og einangruðu Miðgarðakirkju í sjálfboðavinnu. Framkvæmdir við byggingu kirkjunnar halda áfram eftir efnum. Formaður sóknarnefndar segir Grímseyinga þakkláta fyrir veittan stuðning.
Hópur Grímseyinga tók sig til á dögunum og réðist í að einangra nýju Miðgarðakirkju í sjálfboðavinnu. Enn er töluvert verk fyrir höndum og mikið fjármagn vantar, en hægt verður að halda smíðavinnu áfram inni í kirkjunni í vetur.
Tvö ár eru liðin frá því að Grímseyingar urðu fyrir því áfalli að Miðgarðakirkja brann til grunna. Heimamenn ákváðu strax að endurreisa kirkjuna og færðu verkið í hendur fagmanna. Framkvæmdin hefur farið umtalsvert fram úr áætlun – þegar hefur rúmum 120 milljónum verið eytt og enn langt í land. Hægja þurfti verulega á framkvæmdum vegna þessa.
Fréttastofa sagði frá því í sumar að Grímseyingum fyndist að farið hafi verið ógætilega með fjármagn, sem fékkst bæði með ríkisstyrkjum og styrkjum frá almenningi. Vegna þessa voru eyjaskeggjar ósáttir við vinnubrögð fagfólks sem fengið hafði verið til að stýra framkvæmdinni.
Heimamenn láta til sín taka í framkvæmdum
Þrátt fyrir þetta láta Grímseyingar engan bilbug á sér finna. Síðustu helgi tók hópur heimamanna sig til og vann í sjálfboðavinnu að einangrun kirkjunnar að innan og flotaði gólf í skrúðhúsi. Nú á einungis eftir að einangra turninn.
Alfreð Garðarsson, formaður sóknarnefndar, segir að ákveðið hafi verið að doka við svo skuldum yrði ekki safnað en nú hafi verið hafist handa að nýju. Þrír smiðir voru við störf í kirkjunni á dögunum að ganga frá skrúðhúsi og klára almenningssalerni, svo eitthvað sé nefnt.
„Svo er hugmyndin í vetur að það verði settur stigi sem fer upp á loft og svo náttúrulega eigum við eftir að ganga frá þakinu ennþá. Það er svona verið að hugsa hvernig eigi að gera það almennilega. Það var ekki alveg búið að ákveða á hvaða stig það færi. En það var svona allavega að reyna að klára það fyrir veturinn.“
Byggingin orðin upphituð og fokheld
Í vetur verður hægt að sinna frekari smíðavinnu inni í kirkjunni, enda byggingin orðin upphituð.
„Þannig að það er hlýtt og notalegt inni. Það er hægt að gera allt sem manni dettur í hug innanhúss núna og húsið er alveg fokhelt, þannig að það er allt saman frá.“
Framkvæmdin heldur svo áfram eftir efnum. Leitað verður leiða til að gera verkið sem hagkvæmast og Alfreð reiknar með að íbúar haldi áfram að leggja hönd á plóg.
Bygging kirkjunnar fékk styrk úr Jöfnunarsjóði sókna Þjóðkirkjunnar á árinu og búið er að sækja um sama styrk aftur fyrir næsta ár.
„En það er spurning hvað þeir geta gert mikið fyrir okkur. Það eru náttúrulega margir sem eru að leita eftir fjármagni,“ segir Alfreð. Hann segir að bæði heimamenn og velunnarar hafi haldið áfram að styrkja framkvæmdina. Á einu kvöldi í sumar hafi til dæmis ein milljón safnast á einu bretti.
„Við erum búin að fá alveg óskaplega flotta styrki víða um land og viljum bara nota tækifærið og þakka fólki fyrir hvað það hefur staðið vel við bakið á okkur.“
Heimild: Ruv.is